„Æðsta kaldhæðni lífsins er sú að það kemst varla nokkur lifandi út úr því,“ komst Robert A. Heinlein einhverntímann að orði. Og það eru orð að sönnu.
Undanfarna mánuði hafa grínistar vestanhafs fallið hver á eftir öðrum, flestum að óvörum. Allir voru þeir á sjötugsaldri en þrír þeirra létust af veikindum sem þeir höfðu ekki haft hátt um en sá fjórði, Bob Saget fannst látinn á hótelherbergi sínu en talið er að hann hafi fallið og rekið hausinn í eitthvað hart og síðan farið að sofa. Og vaknað dauður, ef svo má að orði komast. Hinir eru þeir Norm Macdonald, Louie Anderson og Gilbert Gottfried, sem lést í gær.
Og þá að kaldhæðni örlaganna. Þegar Louie Anderson lést 21. janúar á þessu ári og þá aðeins 12 dögum eftir andlát Bob Saget, birti Gilbert Gottfried ljósmynd af þeim þremur á góðri stund, á Twitter og minnist þeirra félaga með söknuði. Aðdáandi skrifaði þá við myndina eftirfarandi orð: „Hefurðu áhyggjur yfir því að bölvun hvíli á ljósmyndinni og að þú sért næstur?“ Það reyndist rétt, Gottfried var næstur. Og nú er spurning hvort einhver grínistinn þori að deila ljósmyndinni.