Ivana Trump, fyrrverandi eiginkona Donalds Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta, er látin.
Ivana var 73 ára gömul og lést af völdum hjartaáfalls á heimili sínu í New York. Hún lætur eftir sig börnin sem hún átti með Donald Trump meðan þau voru gift, þau Donald, Ivönku og Eric.
Ivana fæddist í Tékkóslóvakíu árið 1949 en fluttist til Bandaríkjanna til að sinna fyrirsætustörfum og keppa á skíðum. Hún giftist Donald Trump þegar hún var 28 ára gömul, árið 1977. Þau skildu árið 1992 og Ivana giftist tvisvar eftir það. Hún giftist þriðja eiginmanni sínum, Rossano Rubicondi, sem var rúmlega 20 árum yngri en hún sjálf, árið 2008. Þau höfðu verið saman í sex ár áður en þau giftu sig, en hjónabandið entist í tæplega ár. Rubicondi lést skyndilega í nóvember síðastliðnum úr húðkrabbameini.
Meðan á hjónabandi Ivönu og Donalds stóð voru þau umsvifamikil í viðskiptum og áberandi í Bandarísku þjóðlífi. Þau voru fastagestir á síðum hinna ýmsu slúðurblaða. Hjónin ráku saman hótel, spilavíti og verktakafyrirtæki, en Ivana var í háum stjórnunarstöðum hjá fyrirtækjum Trump-samstæðunnar.
Dóttir Ivönu, Ivanka Trump, minntist móður sinnar í færslu sem hún birti á Twitter í gærkvöldi.
„Ég er í sárum eftir fráfall móður minnar. Mamma var afburðasnjöll, heillandi, ástríðufull og hrikalega fyndin. Hún lifði lífi sínu til hins ýtrasta og sleppti aldrei tækifæri til að hlæja og dansa.
Ég mun ávallt sakna hennar og mun halda minningunni um hana á lífi í hjörtum okkar alla tíð.“
Heartbroken by the passing of my mother. Mom was brilliant, charming, passionate and wickedly funny. She lived life to the fullest — never forgoing an opportunity to laugh and dance.
I will miss her forever and will keep her memory alive in our hearts always. ❤️ pic.twitter.com/EyhrLNLUJw
— Ivanka Trump (@IvankaTrump) July 14, 2022