Bandaríski grínistinn og þáttastjórnandinn Jay Leno slasaðist í andliti og höndum er kviknaði í bifreið hans í bílskúr Leno.
Leno, sem er hvað þekktastur fyrir að stjórna spjallþættinum The Tonight Show frá 1992 til 2014, er mikill bílaáhugamaður en í dag stjórnar hann einmitt bílaþættinum Jay Leno´s Garage. Það var einmitt í bílskúrnum hans sem hann varð fyrir alvarlegum bruna er eldur kviknaði í bifreið hans á dögunum. Var hann fluttur með hraði á sjúkrahús en hann var með brunasár á andliti og höndum.
Grínistinn vingjarnlegi sendi frá sér stutta yfirlýsingu til E News! í gær þar sem hann sagði meðal annars: „Ég hlaut nokkuð alvarleg brunasár eftir bensínbruna. Ég er í lagi. Ég þarf bara eina til tvær vikur til að ná mér aftur í lag.“
Grossman Burn Center-sjúkrahúsið í Los Angeles sendi einnig frá sér yfirlýsingur en þar stóð meðal annars: „Ástand Leno er stöðugt. Við erum að meðhöndla brunasár á andliti og höndum eftir brunaslys sem varð í bílskúr hans um síðastliðna helgi.“