Jay Leno sýndi nýja andlit sitt í viðtalið við Kelly Clarkson, eftir að hafa fengið þriðja stigs bruna í fyrra.
Gríngoðsögnin Jay Leno snéri aftur fyrir framan myndavélarnar nýverið í spjallþætti Kelly Clarkson. Þar tjáði hann sig um slysið sem hann lenti í fyrir nokkrum mánuðum og sýndi glænýtt andlit en hann hlaut þriðja stigs brunasár á andliti. Hið nýja andlit er, ótrúlegt nokk, alveg eins og hið gamla, slík eru læknavísindin orðin.
Grínistinn hlaut þriðja stigs brunasár á andliti, handleggjum og höndum þegar eldur kviknaði í bensíni sem skvettist á hann í nóvember síðastliðnum. „Þetta er hið glænýja andlit,“ sagði Jay við þáttastjórnandann, Kelly Clarkson. „Það er satt. Þetta er ótrúlegt.“
Í viðtalinu sem birtist í gær rifjar Jay upp hið óhugnanlega slys sem varð er hann vann í einum af safnbílum hans en grínistinn er annálaðu bíladellukarl. Kryddaði hann söguna með örlitlu spéi, enda grínisti mikill. „Ég var að vinna í bílnum og fékk fullt af bensíni yfir andlitið og það kviknaði í því,“ útskýrði hann og bætti við í gamansömum tón: „Ég hafði verið að borða Flamin’ Hot Dorito og þegar ég beit í flögu, þá kviknaði í andlitinu mínu.
Tók hann fram í heldur alvarlegri tóni, að slysið hefði verið „nokkuð slæmt“ og að hann hefði hlotið þriðja stigs brunasár. Sagði hann svo að hann hefði jafnað sig furðuvel og benti á hökuna og sagði: „Maður hefði haldið að það væri hægt að sjá rennilás hér eða eitthvað en nei.“ Bætti hann við: „Þetta er í annað sinn sem ég er hið nýja andlit grínsins. Ég var það eitt sinn á níunda áratugnum og aftur núna.“
En hvernig gerðist slysið í raun? „Þetta var árgerð 1907 af White Steam-bíl,“ sagði Leno í viðtali við Today 14. desember síðastliðnum. „“Eldsneytisleiðslan var stífluð, þannig að ég var undir henni. Það hljómaði stíflað og ég sagði: „Blástu lofti í gegnum leiðsluna,“ og svo gerði hann það. Og allt í einu búmm, ég fékk fullt af bensíni á andlitið. Og svo hljóp neisti í flugljósið og það kviknaði í andlitinu. Ég sagði við vin minn „Dave, það er kviknað í mér“ og vinur minn sagði „Einmitt.“ Og ég sagði „Nei, Dave, það er kviknað í mér“ og þá sagði Dave „Ó Guð minn góður,“ og dró mig undan bílnum og stökk á mig og kæfði eldinn.“
Hér má sjá hversu ótrúlega vel Jay hefur náð sér en það er ekki að sjá að hann hafi hlotið þriðja stigs brunasár fyrir nokkrum mánuðum.

Það var Eonline sem fjallaði um málið.