Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Jesús er helsta fyrirmynd Arnars – Ekki rómantískur í Hollywood-skilningi en kann að elska

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Senn rennur út frestur til að safna lágmarksfjölda meðmælenda, ætli maður sér að sækjast eftir því að verða forseti Íslands. Á áttunda tug manna hefur að undanförnu safnað meðmælum en nokkrir hafa nú þegar náð þeim áfanga og eru því gjaldgengir í framboð.

Mannlíf lagði spurningalista fyrir þeim frambjóðendur sem náð hafa lágmarksfjölda meðmæla, svo þjóðin fái að kynnast þeim betur. Munu svör frambjóðendanna vera birt á næstu dögum.

Arnar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður er næsti frambjóðandi sem svarar spurningum Mannlífs. Í svörum hans má sjá ýmislegt áhugavert, til dæmis það að Jesús Kristur er hans helsta fyrirmynd í lífinu og að hann hlusti helst á Barokk tónlist.

Hér má lesa svör Arnars:

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

Vestmannaeyjar, þar sem ég er fæddur.

Á forseti að sitja lengur en tvö kjörtímabil?

Að mínu mati ætti það að vera nógu langur tími. Viðmið um hámarkstíma í embætti hafa verið sett víða um heim. Að baki slíkum tímatakmörkunum standa góð rök.

Hvaða breytingar viltu sjá á stjórnskipan Íslands?

- Auglýsing -

Stjórnskipanin sem slík er ágætlega traust og stjórnarskráin er okkar besta vörn gegn ofríki stjórnvalda og misbeitingu valds. Ef ég ætti að nefna eitthvað sem mætti taka til umræðu væri það bæta við annarri umferð í forsetakjöri, þannig að kosið verði milli tveggja efstu í síðari umferð. Einnig væri rétt að ræða hvort skerpa mætti skil milli löggjafar- og framkvæmdavalds. Persónukjör til Alþingis væri einnig sjálfsagt að ræða.

Hver er þinn uppáhalds forseti?

Þar sem þetta er opin spurning leyfi ég mér að nefna Thomas Jefferson, sem var aðalhöfundur sjálfstæðisyfirlýsingar BNA og mótaði margar grundvallarhugmyndir vestræns stjórnskipunarréttar, m.a. um réttindi einstaklingsins og takmarkað ríkisvald. Ég hef einnig sérstakt dálæti á Jóni Sigurðssyni „forseta“ þótt ekki hafi hann orðið forseti sjálfstæðs Íslands.

Finnst þér að gera eigi kröfu um fleiri fjölda meðmælenda frambjóðenda til embættis forseta Íslands?

- Auglýsing -

Mér finnst sjálfsagt að uppfæra þennan fjölda til samræmis við fólksfjölgun á Íslandi frá 1944. En þröskuldurinn má heldur ekki vera of hár, því framboð til forseta á ekki aðeins að vera fyrir þá sem eru þegar þjóðþekktir.

Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu?

Jesús Kristur, enda var hann sannur leiðtogi. Ástæðurnar eru nánar þessar: 

Hann reis upp gegn spilltu peningaveldi (Jóh. 2:14-16)

Stóð óttalaus frammi fyrir blóðþyrstum múg

  • Gekk í gegnum mannþröng í Nasaret sem vill kasta honum fram af fjallsbrún (Lk 4:28-29)
  • Varði seku konuna (Jóh. 7.53-8.11)
  • Varði lærisveina sína gegn rómverskri herdeild (Jóh. 18:8)

Boðaði fagnaðarerindið þrátt fyrir ógn og hótanir

Sneri aftur til Galíleu til að halda áfram starfi Jóhannesar skírara sem hafði verið fangelsaður og tekinn af lífi (Mk. 1:14)

  • Hélt áfram þótt ýmsir hópar ráðgerðu og reyndu að ráða hann af dögum (Jóh. 5:16; Mk. 7:5; Jóh. 8:59; Jóh. 10:20; Lk 13-31; Jóh. 11:53; Lk. 19:47).   

Bugaðist ekki við yfirheyrslu dómarans (Matt. 27:1-26)

Andmælti falskenningum áhrifamikilla manna

  • Vann læknisverk á hvíldardegi (Mk. 2:7; Matt. 12-10)
  • Svaraði fræðimönnum sem ásökuðu hann (Mk 3:22)
  • Benti á hræsni farísea og fræðimanna (Lúk. 11.53-54)
  • Kenndi í musterinu þrátt fyrir morðhótanir (Mk. 11:27-28)

Mætti ofsóknum og pyntingum af hugrekki.

  • Hafði mörg tækifæri til að hörfa, hætta við, umorða boðskap sinn en gerði það ekki (Matt. 27:27-50)

Mætti dauðanum af hugrekki (Jóh. 10:18; Jóh. 15:13).

Hver er uppáhaldstónlist þín?

Barokk tónlist.

Hefurðu neytt ólöglegra fíkniefna?

Nei.

Gerði Ólafur Ragnar Grímsson rétt með því að beita neitunarvaldinu á sínum tíma?

Já, Icesave málið var af þeirri stærðargráðu að þjóðin sjálf átti að eiga síðasta orðið, sbr. 26. gr. stjskr.

Hver var stærsta stundin í lífi þínu?

Þegar ég giftist konunni minni, Hrafnhildi Sigurðardóttur – og þegar börnin okkar fimm fæddust.

Hver eru mestu vonbrigðin?

Að hafa ekki fengið betri söngrödd, en konan og börnin vega það upp.

Fallegasta ljóðið?

Ljóðið Vitinn eftir Pétur Sigurðsson, sem birt var í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1967:

Vitinn

Þar sem berast er land, út á bjargtanga köldum,

einatt barinn af stormum og rjúkandi öldum;

þar sem brimið er mest, þar sem brotsjóir rísa

er þér boðið að standa, að vaka og lýsa.

Þú átt bjargfasta lund, þú ert byggður á kletti,

þaðan bifast þú aldrei, þig meistari setti,

til að beina þeim leið framhjá boðum og strandi,

sem á brothættu fleyjunum sigla að landi.

Upp úr kólgunni lyftir þú höfðinu háa,

yfir hraunið og flúðir og sandana gráa,

þannig verða þeir allir, sem langt vilja lýsa,

upp af lágmennsku auðninni sterkir að rísa.

Engin bölsýni kæft getur blossana þína,

þú ert bjartsýnn á lífið og þolinn að skína,

þú ferð aldrei að vilja þíns umhverfis svarta,

sem er andstæða verst þínu ljóselska hjarta.

Þó að óstjórn og lausung og ofbeldi ríki,

þó að ægilegt náttmyrkur huga manns sýki,

þó að stormarnir tryllist, er stjörnurnar hylja,

ekkert sturlar þinn frið og þinn bjargfasta vilja.

Víða sendir þú geisla að leita og leiða,

miklu ljósmagni þarft þú að dreifa og eyða

út í myrkur og auðn, þó að engan þú finnir,

þessu eilífðar starfi þú trúfastur sinnir.

Þótt aldrei þú spyrjir frá eyjum né veri,

hvort árangur starf þitt í heiminum beri,

þá lama‘ ekki áhyggjur ljósiðju þína,

því að líf þitt og yndi er þetta — að SKÍNA.


Besta skáldsagan?

Brennu-Njáls saga, ef hana má flokka sem skáldsögu. Annars Meistarinn og Margaríta eftir Búlgakov.

Hvað er það besta við Ísland?

Ósnortin víðerni, hreint vatn, ferskt loft, gott fólk, merk saga, djúpar rætur.

Kanntu á þvottavél?

Að sjálfsögðu.

Ef þú ættir eina ósk, Íslendingum til hagsbóta, hver væri hún?

Að við náum að standa vörð um sjálfstæði okkar, sem einstaklinga og sem þjóðar, komandi kynslóðum til góðs.

Að þínu mati, hvert er helsta hlutverk forseta Íslands?

Að tala von og kjark inn í hjörtu Íslendinga. Minna á að við eigum hér sameiginlega hagsmuni, sem við getum sameinast um að gæta, þótt vissulega séum við ólík. Sem forseti vil ég mynda góð og sönn tengsl við íslensku þjóðina. Hlusta og þjóna í þeirri von að við náum að standa þétt saman eins og fjölskylda um okkar sameiginlega heimili, sem er Ísland. Á þessum grunni getur forseti verið talsmaður þjóðarinnar út á við og staðið vörð um fullveldi landsins.

Borðarðu þorramat?

Já.

Ertu rómantísk/ur?

Ekki í Hollywood skilningi, en ég kann að elska.

Í stuttu máli; hvers vegna ætti að kjósa þig til embættis forseta Íslands?

Vegna þess að ég mun standa vörð um lýðræðið og vera dyggur og trúr þjónn fólksins í landinu, verja stjórnarskrá lýðveldisins, verja sjálfstæði Íslands, vera málsvari frelsis og sjálfsákvörðunarréttar. Ég er engum háður. Enginn flokkur, ekkert valdakerfi, engin peningaöfl ráða yfir mér eða stjórna því hvernig ég tala. Ég vil verja hrein og góð gildi, verja sakleysið og verja Ísland. Standa vörð um íslenska tungu, leggja rækt við íslenska menningu, vera rödd friðar og sátta. Ég er ekki á þessari vegferð fyrir sjálfan mig, heldur til að verja framangreindar hugsjónir. Það geri ég ekki einn, heldur með mína traustu og sterku eiginkonu mér við hlið og vonandi studdur af þeim sem unna landi og þjóð.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -