Konungur þjóðvegarins, Jóhannes Guðnason, datt í lukkupottinn í fyrradag þegar honum áskotnaðist nýtt hné. Hann tilkynnti um þessa stálheppni sína á Facebook og lýsti því að hann hefði „komist óvænt í hnéskipti þann 19.12.2022, klukkan.14.40″.
Jóhannes, sem er fæddur árið 1957, tók tilboðinu, umsvifalaust og er nú kominn með bæði plast og stál þar sem gamli, slitni hnjáliðurinn var áður.
„Svo vil ég þakka öllu því duglega og yndislega og fórnvísa starfsfólki Landspítala Fossvogi, fyrir frábæran og yndislegan sólahring,“ segir hann.
Jóhannes er þekktur sem Jóhannes á Fóðurbílnum en söðlaði seinna um og gerðist bílstjóri hjá Olíudreifingu. Hann var lengi vel fastagestur í útvarpsþáttum og einkum þekktur fyrir smitandi hlátur sinn sem liðaðist um öldur ljósvakans. Þá vakti sérstaka athygli sú yfirlýsing hans að nýji Scania-bíllinn hans væri svo magnaður að hann þyrfti ekki Viagra undir stýri.
„Takk fyrir, elskurnar mínar. Nú tekur við smá erfiður tími bæði fyrir Jóhannes og svo mest fyrir elsku Sirrý mína,“ skrifa hann af sjúkrabeði sínum þar sem nýr hnjáliður aðlagast því sem eftir stendur af fætinum.
Jóhannes þjóðvegakóngur er kominn heim með nýja hnjáliðinn sinn, umvafinn kærleika konu sinnar. Viðbúið er að innan tveggja mánaða verði hann farinn að skokka um sem lamb að vori.