Jón Axel Ólafsson minntist föður síns í beinni útsendingu á K100 á föstudaginn en hann lést fyrir helgi.
Útvarpsmaðurinn góðkunni, Jón Axel Ólafsson, sem starfar á K100, minntist föður síns í þættinum Skemmtilegri leiðin heim á föstudaginn, undir liðnum „Takk“ en faðir hans, Ólafur Axelsson húsasmiðameistari, lést á fimmtudaginn.
„Pabbi dó í gær og verður maður þá ekki að þakka fyrir hann?“ sagði Jón Axel við Ásgeir Pál Ágústsson, samstarfsmann sinn.
Fram kemur í frétt K100 var að finna kaldhæðni og húmor líkt vanalega í dagskrárliðnum „Takk“ en líka einlægar og hlýjar minningar.
Hér má lesa allar þakkirnar sem Ólafur heitinn fékk frá syni sínum:
„Takk pabbi fyrir Ólafsson-genin. Ég er ekkert smá heppinn að við karlarnir í fjölskyldunni verðum gráhærðir – ekki sköllóttir!“
„Takk pabbi fyrir að stela alltaf skorpunni af hryggnum. Ég geri það líka núna þegar Óli [sonur minn] er hjá mér. Þú varst fljótur að grípa skorpuna – jafnvel áður en hryggurinn kom á borðið!“
„Takk pabbi fyrir að minna mig alltaf á að lífið er ekki sanngjarnt. Það tók mig reyndar langan tíma að fatta að þú hafðir rétt fyrir þér.“
„Takk pabbi fyrir danstaktana með Elvis lögunum. Ég er ekki viss um að sporin hafi verið kúl, en þau voru góð í minningunni.“
„Takk pabbi fyrir að tryggja að ég færi ekki út með ruslið á jólunum, áður en pakkarnir voru opnaðir. Hann var alltaf með ruslapokana – hann tók ruslið í raun áður en það varð til!“
„Takk pabbi fyrir að kenna mér að spara rafmagn. Ég lærði ungur að þreifa mig áfram í myrkrinu, og það hefur nýst mér vel í gegnum árin. Maður var á klósettinu – og allt í einu kom hönd og slökkti ljósið!“
„Takk pabbi fyrir allar klisjurnar þínar. Ég nota þær ennþá.“
„Takk pabbi fyrir fúlu brandarana. Sem voru virkilega fúlir – eins og ‘Fyrr má nú afla en kartafla’ og ‘Betri er Clint Eastwood en Klínt allt út.’
„Takk pabbi fyrir að gefa orðinu ‘Zoom Zipp’ alveg nýja merkingu. Þú varst ekki kallaður Óli Strax fyrir ekki neitt!“
„Takk pabbi fyrir að kalla mig snilling – þótt þú vissir betur.“
„Takk pabbi fyrir að elska mig eins og ég er og kenna mér að gera þetta líka. Þó að þú hafir ekkert verið að missa þig í að tala um tilfinningar í gegnum árin. En ég náði skilaboðunum. – Karlar voru ekkert mikið að tala um tilfinningar.“
Og að lokum: „Takk pabbi fyrir allt. Ég vona bara að þarna uppi sé nóg af kaffibollum og neftóbaki. Eða ertu ekki uppi annars?“
Hér má hlusta á Jón Axel þakka pabba sínum: