Jón Gnarr segist hafa fengin högg fyrir hjartað þegar hann sá fréttir af andláti hins sérlundaða kvikmyndaleikstjóra David Lynch, í gær.
Hinn sérvitri og margverðlaunaði kvikmyndaleikstjóri David Lynch lést í gær, 78 ára að aldri, eftir erfiða glímu við lungnaþembu. Fræga fólkið, bæði í Hollywood og á Íslandi kepptust við það í gær að minnast Lynch, skiljanlega enda um einn merkilegasta kvikmyndaleikstjóra allra tíma að ræða. Þingmaðurinn Jón Gnarr er einn þeirrra frægu sem minntist hans en honum brá svo við fréttirnar að hann fékk bæði högg fyrir hjartað og tár í augun.
„David Lynch er fallinn frá. Þegar ég sá fréttina brá mér svo að ég fékk högg fyrir hjartað og tár brutust fram í augun. Einsog hann hefði verið tengdur mér, sem hann var ekki. En samt var hann nákominn þótt við höfum aldrei hist. Hann var maður sem með hugsunum sínum og verkum hafði áhrif á mig. Ég var örugglega ekki nema 13 ára þegar ég sá Eraserhead á VHS. Þegar ég var búinn að horfa á hana horfði ég strax á hana aftur. Ég ætla ekki að reyna að lýsa þeim hughrifum sem hún hafði á mig en það var blanda forundran og kitlandi gleði sem myndaði streng frá maganum og uppí heilann.“
Segist Jón síðan þá hafa horft á flestar hans myndir en þær hafi verið „misjafnlega ágætar“:
„Ég hef síðan horft á flestar mynda hans. Þær hafa verið misjafnlega ágætar en flestar börn síns tíma. Uppúr standa Blue velvet og Wild at heart. Og Fílamaðurinn auðvitað. Svo gerði hann líka hversdagslegar kvikmyndir sem voru fáránlegar í einfaldleika sínum, einsog The Straight story. Hún var samt eiginlega sjónvarpsmynd. Ekki hafði ég nokkra ánægju af Mulholand drive eða Lost highway.“
Að lokum segir Jón frá því verki Lynch sem hafði hvað mest áhrif á þingmanninn en það eru þættirnir Tvídrangar sem skelfdu áhorfendur í lok síðustu aldar og svo aftur fyrir nokkrum árum þegar þriðja og síðasta serían var sýnd.
Jón skrifaði: „En það verk Davíðs sem hafði mest afgerandi áhrif á mig og hefur fylgt mér æ síðan eru sjónvarpsþættirnir Twin Peaks eða Tvídrangar einsog þeir hétu á RÚV. Á þessum tíma þótti sjónvarp ekkert sérstaklega smart eða listrænt og miðillinn gjarnan talinn farvegur fyrir froðu og lágmenningu. Kvikmyndaleikarar forðuðust að leika í sjónvarpi því það var talið geta skaðað glæstan kvikmyndaferil. En David Lynch ögraði þessu og sýndi og sannaði að sjónvarp er engu síðri miðill en leikhús eða kvikmynd. Twin Peaks voru fyrir mér Berlínarmúr sjónvarpsins og hafði djúpstæða áhrif á mig sem ég verð alltaf þakklátur fyrir. Blessuð sé minning Davi@d Lynch.“