Mæðradagurinn var haldinn víða um lönd í fyrradag og kepptust notendur samfélagsmiðlanna við að birta ljósmyndir af mæðrum sínum eða barnsmæðrum og skrifa falleg orð, enda ekkert sjálfsagðara. Jón Gnarr lét ekki sitt eftir liggja og birti fallegan texta um móður sína Bjarneyjar Ágústu Jónsdóttur, sem lést fyrir 15 árum síðan.
„Mamma mín Bjarney Ágústa Jónsdóttir. Konan sem bjó mig til inní sér og kom mér útí lífið. Það sem ég sakna þín alltaf elsku fallega mamma mín. Ég á ennþá varalitinn þinn og hef aldrei eytt þér úr símanum mínum þó það séu 15 ár síðan þú fórst til Sumarlandsins. Skoða það alltaf í símanum mínum þegar ég kem frá útlöndum því ég var vanur að hringja alltaf í þig til að segja þér að ég væri lentur.“ Þannig hefst hin ljúfsára færsla Jóns. Segir hann svo að þrautseigjuna og staðfestuna hafi hann frá henni.
Að lokum segist Jón ætla að vera með varalitinn hennar í vasanum á mæðradaginn.