Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Jón Viðar er mjög ánægður með Vitjanir: „Frammistaða þeirra heilt á litið til fyrirmyndar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einn þekktasti listgagnrýnandi landsins, Jón Viðar Jónsson hefur fylgst með íslensku sjónvarpsþáttunum Vitjanir á Rúv undanfarnar vikur líkt og fjölmargir Íslendingar. Og hvernig ætli Jóni Viðari líki við þættina?

Þættirnir fjalla um „bráðalækninn Kristínu sem flytur með unglingsdóttur sinni heim til foreldra sinna í lítið sjávarþorp eftir framhjáhald eiginmannsins. Kristín, sem er raunsæ og jarðbundin, kemt fljótt að því að hún fer langt út fyrir þægindarammann í samskiptum við miðilinn móður sína og neyðist til að horfast í augu við drauga fortíðar,“ líkt og stendur á vef Rúv.

Bakvið þættina er frábært kvennateymi en Eva Sigurðardóttir er leikstjóri og þær Kolbrún Anna Björnsdóttir og Vala Þórsdóttir skrifa handritið, en bæði Kolbrún Anna og Vala leika einnig í þáttunum.

Jón Viðar, sem vekur venjulega athygli fyrir hvassar og neikvæða gagnrýni kom eflaust mörgum á óvart með færslu sinni en þar lofsamar hann þættina. Byrjar hann að tala um íslenska þáttagerðafólk sem hefur verið að gera það gott undanfarið og sótt innblástur á landsbyggðina. Nefnir hann til að mynda Svörtu sanda hans Baldvins Z sem sýndir voru á Stöð tvö í vetur en honum fannst þeir góðir.

„Nú má hver dæma fyrir sig, en ég, fyrir mína parta, hef haft langmest gaman af Vitjunum. Ég þekki því miður ekki til þess kvennateymis sem stendur að baki þeim, en það leynir sér ekki að þetta er alvörufólk sem bæði kann að segja sögu í þessu listformi, kann til verka í sviðsetningu, myndvinnslu oþh og vandar sig í hvívetna. Hefur þar á ofan ágætan húmor. Formúlur og fyrirmyndir eru vissulega margar kunnar, en hvað gerir það til ef heildarmyndin er þokkalega trúverðug og leikurunum tekst að blása lífi í persónurnar? Þeir eru hér mjög vel valdir, sýnist mér og frammistaða þeirra heilt á litið til fyrirmyndar.“

Jón Viðar er hrifinn af leikurunum í þáttunum og nefnir þá Jóhann Jóhannsson, sem leikur lögregluna Ragnar í þáttunum og nefnir einnig Kolbrúnu Önnu.

- Auglýsing -

„Einhverjir verulega betri en aðrir? Eiginlega ekki – og þó. Jói Jóhannson (hét hann ekki einhverntíma Jóhann G. Jóhannsson?) brillerar sem Raggi lögga, hann hefur aldrei fyrr sýnt slíka takta, en ég hef ugglaust ekki séð allt sem hann hefur gert). Virðist í fyrstu heldur vonlaus lúði, fastur í lífi sem hann er alls ekki sáttur við, en sækir svo í sig veðrið þegar á líður, enda tólfsporamaður undir traustri handleiðslu Þrastar Leós sem er auðsæilega pottþéttur AA trúnaðarmaður. Hann, ásamt Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur (+ fjölskyldu) eiga einna mestan þátt í að lyfta leiknum þegar fram í sækir uns hann nær að verða beinlínis áhrifamikill í hörmungum sjötta og sjöunda þáttar.“

Og Jón Viðar nefnir fleiri leikara sem honum þykir standa upp úr annars frábærum leikarahópi.

„En fleiri gera það gott. Vala Þórsdóttir er dásamlega fyndin sem grasalæknirinn sem lifir að hálfu leyti í álfheimum – hver þekkir ekki svona eilífðarhippa og kuklara? Eða hina sjúklega stjórnsömu systur sem Steinunn Ólína teiknar upp af fullkomnu öryggi, sama öryggi og hún sýndi í hlutverki hinnar alkóhóliseruðu móður í Svörtum söndum. Katla Njálsdóttir er líka mjög góð sem dóttirin og ekki verra að sjá rosknar stórleikkonur blómstra eins og þær gera Helga Jónsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir. Er annars nokkuð fallegra í leiklistinni en rosknir leikarar og jafnvel aldraðir sem allt í einu fá að skína? Sara Dögg gerir Kristínu líka góð skil, en persónan nær einhvern veginn ekki að fanga áhuga manns eða samúð, eins þótt hún sé í óttalegri tilvistarkrísu og viti varla hvaða sambandi hún er að fara úr eða koma í. Getur annars hugsast að persónan eigi sér fyrirmynd í bandarískri sápu á Netflix, Virgin River, sem fjallar einmitt um hjúkrunarkonu í svipaðri aðstöðu? Ekki svo að skilja, konan er ekkert verri fyrir það, það er bara svo erfitt að þola til lengdar fólk sem aldrei getur ákveðið sig (sbr Hamlet sem ég hef aldrei fílað almennilega, ekki frekar en TS Eliot og fleiri góðir menn).“

- Auglýsing -

Að lokum veltir Jón Viðar sér fyrir endalokunum en lokaþátturinn er á morgun og segir kvennateymið sem stendur að þáttunum geti fyllilega flokkað sér í hóp með „stórveldum“ sem fyrir eru í bransanum.

„Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Eva Sigurðardóttir og félagar landa dramanu í síðasta þætti. Og mér kæmi mjög á óvart yrði þar ekki opnað á amk aðra röð í viðbót. Þó víða sé komið við er naumast nokkur skortur á nýtilegum söguefnum á Hólmafirði eða nágrannabyggðum (ég sé að fólk nefnir hér eldgos eða einhverjar náttúruhamfarir, það gæti eflaust bjargað einni seríu í bland við annað). Aðalatriðið er að þetta kvennateymi stillir sér nú með sóma upp við hliðina á þeim „stórveldum“ sem fyrir eru í bransanum og vekur vonir um enn meiri grósku í listinni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -