Júlía Óttarsdóttir gjörbreytti um lífsstíl aðeins 19 ára gömul og fór frá djammi og stórreykingum yfir í að halda kakóseremóníur fyrir Íslendinga. Júlía, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist hafa fundið köllun í að breyta lífi sínu og að eftir það hafi hún aldrei snúið við:
„Það gerist í lífi okkar allra að við fáum kall til að vakna til vitundar, en svo er bara spurning hvort við séum nógu tengd til þess að hlusta. Ég fékk þetta kall þegar ég var mjög ung og hlýddi því sem betur fer. Ég flutti til Danmerkur þegar ég var 19 ára gömul. Mér leið eins og ég yrði að komast aðeins í burtu frá Íslandi. Ég var byrjuð að djamma og það var mjög gaman, en svo varð það meira og meira og á einhverjum punkti varð það of mikið fyrir mig. Ég fann að það væri eitthvað meira í lífinu en bara þessi lífsstíll og það var eitthvað að kalla mig í aðra átt. Þannig að ég flutti til systur minnar í Danmörku, þar sem ég var allt í einu komin bara út í náttúruna, byrjuð að borða hollan mat, hægja á öllu og allt breyttist. Ég hafði alltaf verið mikið náttúrubarn, en tengingin hafði rofnað, en þarna kviknaði hún aftur og hægt og rólega breyttist allt. Ég hafði verið að reykja pakka á dag, en ég hætti bæði að reykja og drekka á þessu tímabili og ég fann hvernig ég fór öll að endurnærast og tengjast upp á nýtt. Ég trúi því að við séum öll náttúrubörn og getum tengt okkur við innsæið með því að tengjast móður jörð. En aftengingin er orðin mikil út af lífsstílnum okkar. Hvort sem það er matarræði, streita, of lítil hvíld, hreyfingarleysi eða skortur á nánd.“ segir Júlía, sem fékk að kynnast alls kyns óhefðbundnum hlutum í Danmörku. Eitt af því var að fara í kakóseremóníu:
„Ég var nýkomin til Kaupmannahfnar og þar er mér boðið í kakóseremóníu í fyrsta skipti. Ég hafði ekki hugmynd um hvað það væri, en ákvað að slá til og láta koma mér á óvart. Það má segja að það hafi ekki verið aftur snúið eftir það. Ég endaði svo í Gvatemala, þar sem ég lærði allt sem hægt er að læra um þessa mögnuðu plöntu og hvernig er hægt að vinna með hana. Fyrst þegar ég kom með þetta til Íslands og byrjaði að halda seremíóníur fann ég hvað fólki fannst þetta skrýtið og það var góð æfing í áliti annarra. En hægt og rólega hefur þetta gjörbreyst og fólk er upp til hópa orðið mjög opið í dag,“ segir Júlía sem lærði af heimafólki hvernig ætti að vinna með kakó-plöntuna og hefur í meira en tíu ár haldið kakó-seremóníur á Íslandi. Hún segir að fyrst um sinn hafi hún fengið góða æfingu í áliti annarra, sem sé frábær skóli:
„Ég finn mikla breytingu, en það er samt örugglega ennþá fullt af fólki sem dæmir mig fyrir það sem ég er að gera. Hvort sem það er að vera allsber úti í náttúrunni, halda kakóseremóníur eða annað. En mér er bara skítsama. Af hverju ætti ég að vera að gefa lífsorkuna mína í ótta við álit annarra. Það er eiginlega bara alveg galið ef maður hugsar um það. Fyrst var þetta alveg æfing og ég fann dómhörkuna mjög vel, en núna lít ég nánast á það sem skyldu mína að hrista aðeins upp í fólki með því að vera ég sjálf.“
Júlía segist trúa því að fólk sé að vakna til vitundar um að taka ábyrgð á eigin lífi og eigin hegðun:
„Við lifum á tímum þar sem sjálfsábyrgð er algjört lykilatriði. Við höfum lifað í þeirri trú að kerfið muni einhvern vegin bjarga okkur, eða að það sé einhver að passa upp á okkur, en það er ekki þannig. Við verðum sjálf að taka ábyrgð á eigin heilsu og vellíðan. Við getum ekki bara gefið kraftinn okkar frá okkur með því að fara í sömu átt og allir hinir og treysta því að einhver annar muni bjarga okkur. Við búum í heimi sem er uppfullur af eiturefnum, skökku matarræði og slæmum lífsstíl, en svo verðum við steinhissa ef við verðum kvíðin eða þunglynd og gerum ekki tengingu við lífsstílinn.“
„Leiðin áfram er að við byrjum að átta okkur á því að innst inni erum við öll eitt og við erum öll í þessu saman. Þessi aðskilnaður sem stöðugt er verið að selja okkur inn í gerir engum gott. Við og hinir virðist hafa verið lögmálið í langan tíma, en ég trúi því að við séum að vakna til vitundar um að aðskilnaður og dómharka er það sem hefur búið til flest okkar vandamál í gegnum mannkynssöguna. Þegar maður bendir á aðra þá eru þrír fingur að benda til baka á mann sjálfan. Það er gott að vera alveg viss um að maður sé búinn að taka til hjá sjálfum sér áður en maður bendir á aðra og dæmir annað fólk. En vakningin er hafin og ég er sannfærð um að það verður ekki aftur snúið og að það er eitthvað mjög fallegt framundan.“
Hægt er að nálgast viðtalið við Júlíu og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is