Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Kárahnjúkavirkjun mótaði æsku Loga Pedró: ,,Eins og að vera sendur í Gúlakið”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Logi Pedró Stefánsson segir Kárahnjúkavirkjun hafa mótað æsku sína. Logi, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, var aðeins 13 ára gamall þegar hann tók þátt í mótmælum gegn aðbúnaði vinnufólks á Kárahnjúkum, sem lögreglan tók mjög hart á:

„Kárahnjúkavirkjun mótaði í raun unglingsárin mín mjög mikið. Pabbi vann sem trúnaðarmaður starfsmanna þarna fyrir austan, en hann hefur alltaf verið andófsmaður á ákveðinn hátt og farið gegn straumnum. Hann var handtekinn í stúdentamótmælum bæði í París og á Íslandi. Aðstæður verkamannanna voru mjög slæmar á Karahnjúkum og það mótaði mikið mína mynd af þessarri virkjun. Ég fór þarna tvisvar og þetta var bara alls ekki næs. Aðbúnaðurinn var mjög slæmur og þetta var á ákveðinn hátt eins og að vera sendur í Gúlakið. Þetta var bara hættulegt og það var ekki farið vel með þá sem voru að vinna þarna. Ég man ekki alveg hvað það voru margir sem létust þarna, en það var augljóst að það var ekki í lagi með margt við þessar framkvæmdir. Ég var bara þrettán ára þegar ég byrjaði að taka þátt í því að mótmæla aðbúnaði verkamanna og var í hópi sem var að skipuleggja mótmæli gegn þessu. Þetta var dáldið súrrealískt, að mæta á fundi í Kaffi Hljómalind og taka batteríið og simkortið úr símanum af því að það var líklegt að það væri verið að hlera mann,“ segir Logi og heldur áfram:

„Maður pældi í því hvort þetta væri bara paranoia, en það var alls ekki þannig. Lögregluaðgerðir gegn mótmælendum voru mjög harðar og það var mikið gert til að stoppa þetta í fæðingu. Það voru ,,undercover” lögreglumenn sem komu sér inn í hóp mótmælenda og áttu í ástarsambandi við þá meðal annars til þess að fá upplýsingar. Það er búið að vera að fletta ofan af þessu á síðustu árum og þetta var í raun mjög merkilegt tímabil.“

Logi hefur í gegnum tíðina rætt um rasisma sem hann hefur orðið fyrir á Íslandi og hefur fengið mikil viðbrögð við því. Hann segist hafa hugsað hlutina upp á nýtt eftir að hann hafi eignast börn og lykilatriði sé að festast ekki í svart hvítri umræðu:

„Ég hef mikið pælt í því hvað það er að vera svartur og fyrir mér var það alltaf skýrt og klippt og skorið. Ég leit á mig sem hluta af ákveðnum hóp og ákveðinni sögu og stærra samhengi. Hluti af nýlendusögunni til dæmis. En á síðustu árum hef ég hugsað þetta á nýjan hátt. Ekki síst eftir að ég eignaðist börn, sem eru ljósari en ég á hörund og geta í raun ákveðið hvort þau séu svört eða hvít. Þetta mengi að vera svartur eða hvítur er í raun tilbúið mengi. Við erum með litróf af fólki um allan heim og á síðustu árum hef ég áttað mig betur og betur á því að ég vil hafna þessarri forritun. En að sama skapi vil ég alls ekki gera lítið af upplifum fólks um það apð tilheyra ákveðnu mengi og hafa ákveðna sögu. Þessi mengi verða að fjötrum ef við festumst of djúpt í þeim,“ segir Logi og heldur áfram:

„Ég held að umræðan um rasisma á Íslandi sé ekki einföld. Í dag snýst þetta ekki endilega um útlit. Fólk hefur ekki á móti einhverjum sem lítur einhvern vegin út, en fólk er oft með fordóma gagnvart stöðu fólks eða hópinn sem það tilheyrir. Fólk upplifir sig ekki rasískt af því að það er ekki með fórdóma út frá húðlit, en á sama hátt eru kannski annars konar fordómar í gangi. Til dæmis hvernig við höfum talað um Pólverja í gegnum tíðina og höfum ákveðna hugmynd um hóp og alhæfum út frá því. Hvort sem það eru flóttamann, múslimar eða annað. En þetta er ekki einföld umræða og það er ekki hægt að ná utan um hana nema fara talsvert djúpt.“

- Auglýsing -

Í þættinum tala Logi og Sölvi um menningarstríðið sem er í gangi í samfélaginu, þar sem fólk með andstæðar skoðanir er oft gert að óvinum. Logi segist umgangast marga sem hann er ósammála í mörgu og að honum finnist það heilbrigt og gera sér gott:

„Ég á bæði vini sem hafa farið mjög langt til vinstri og líka mjög langt til hægri á síðustu árunum, en mér finnst gott að vera innan um fólk sem ég er ekki alltaf sammála. Til dæmis Skoðanabræður, þeir eru vinir mínir, en ég er oft ósammála því sem þeir segja. Ég er til dæmis mjög ósammála mörgu sem Snorri Másson segir um útlendingamál. Hann er mikið að tala um að við verðum að varðveita íslenskuna, sem ég er alveg sammála. En það sem mér finnst stundum vanta í þessa umræðu um innflytjendur er meiri mennska og að við missum aldrei sjónar á því að verið erum að tala um fólk. Fólk sem á margan hátt heldur samfélaginu okkar gangandi. Ef við viljum að þetta fólk tali íslensku þarf ríkið að gera miklu meira og við getum ekki bara öskrað að það sé vandamál að þau tali ekki íslensku eins og það sé þeim að kenna. En við Snorri höfum þekkst síðan við vorum unglingar og mér þykir mjög vænt um hann sem manneskju. Ég þekki fólkið hans og hann er bara vinur minn. Mér finnst heilbrigt að vera í kringum hann og fleira fólk sem ég er oft ósammála. Það gerir engum gott að festast í bergmálshelli þar sem þú ert bara með fólki sem er sammála þér í einu og öllu. Skoðanabræðurnir, Beggi og Snorri eru mjög klárir menn og skemmtilegir og Beggi var til dæmis maðurinn sem kom mér inn á Eckhart Tolle og fleiri hluti sem hafa haft mjög góð áhrif á líf mitt.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Loga og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

- Auglýsing -

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -