Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Katrín er „hversdagsrómantíker“: „Hef tekið þá afstöðu í lífinu að stökkva frekar en að hrökkva“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Senn rennur út frestur til að safna lágmarksfjölda meðmælenda, ætli maður sér að sækjast eftir því að verða forseti Íslands. Á áttunda tug manna hefur að undanförnu safnað meðmælum en nokkrir hafa nú þegar náð þeim áfanga og eru því gjaldgengir í framboð.

Mannlíf lagði spurningalista fyrir þeim frambjóðendur sem náð hafa lágmarksfjölda meðmæla, svo þjóðin fái að kynnast þeim betur. Munu svör frambjóðendanna vera birt á næstu dögum.

Katrín Jakobsdóttir er næsti forsetaframbjóðandinn sem svarar spurningalista Mannlífs. Þar kennir ýmissa grasa en hún hefur skýra sýn á hlutverki forseta Íslands, borðar lundabagga með bestu lyst og er „hversdagsrómantíker“.

Hér má sjá svör Katrínar:

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

Það er erfitt að velja einn stað, hver og einn staður hefur sín sérkenni. Ég gæti nefnt Þingvelli, spegilsléttan Arnarfjörð, birtuna sem umfaðmar mann við Búlandstind eða Garðskagafjöruna og þannig mætti lengi telja.

- Auglýsing -

Á forseti að sitja lengur en tvö kjörtímabil?

Persónulega myndi ég telja 8-12 ár hæfilegan tíma.

Hvaða breytingar viltu sjá á stjórnskipan Íslands?

- Auglýsing -

Ég lagði á sínum tíma fram frumvarp um breytingar á stjórnarskrá sem byggði á mjög vandaðri vinnu og ég tel að feli í sér jákvæðar umbætur á stjórnarskránni. Þar voru lagðar til skýrari línur um forsetaembættið en einnig ný ákvæði, meðal annars um auðlindir og umhverfi.

Hver er þinn uppáhalds forseti?

Það er ógjörningur að gera upp á milli þeirra sem ég hef fylgst með sinna embætti forseta Íslands. Öll hafa þau sinnt því einstaklega vel þannig að sómi hefur verið að og þau eru sönn fyrirmynd fyrir næsta forseta.

Finnst þér að gera eigi kröfu um fleiri fjölda meðmælenda frambjóðenda til embættis forseta Íslands?

Fjöldi kjósenda á kjörskrá àrið 1944 var tæplega 75.000 og svaraði því lágmarksfjöldi meðmælenda (1.500) til u.þ.b. 2% kjósenda, en hámarksfjöldi (3.000) til 4%. Ég hef lagt til að þessi fjöldi verði uppfærður í stjórnarskrá í takti við fjölgun íbúa og verði hlutfallslegur eða minnst 2,5% kosningabærra manna.

Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu?

Foreldrar mínir eru örugglega mín helsta fyrirmynd en í lífinu hef ég kynnst ótrúlega mörgu fólki sem hefur haft áhrif á mig með lífsviðhorfi sínu og gildismati. Eins er margt listafólk og íþróttafólk sem hefur veitt mér mikinn innblástur.

Hver er uppáhaldstónlist þín?

Það sem Gunnar og drengirnir eru að hlusta á hverju sinni!

Hefurðu neytt ólöglegra fíkniefna?

Nei.

Gerði Ólafur Ragnar Grímsson rétt með því að beita neitunarvaldinu á sínum tíma?

Já, ég tel að Ólafur Ragnar hafi gert rétt með því að beita málskotsréttinum og þar með staðfest að rétturinn er raunverulegur og virkur.

Hver var stærsta stundin í lífi þínu?

Það eru fæðingar sonanna þriggja, hver og ein ógleymanleg lífsreynsla og hver og einn einstakur.

Hver eru mestu vonbrigðin?

Vonbrigðin felast yfirleitt í því sem maður gerir ekki frekar en því sem maður gerir. Þannig að ég hef tekið þá afstöðu í lífinu að stökkva frekar en að hrökkva.

Fallegasta ljóðið?

Langar að nefna ljóð eftir Gerði Kristnýju og Gyrði Elíasson, auðvitað Jóhann Sigurjónsson og þulur Theódóru- en líklega gleymi ég því aldrei þegar Þorsteinn frá Hamri las ljóð sitt um kvöldið við útför móður minnar árið 2011.

Besta skáldsagan?

Það er auðvitað ekkert hægt að nefna eina skáldsögu, þær eru margar í svo miklu uppáhaldi. En Salka Valka hafði mikil áhrif á mig þegar ég las hana fyrst í menntaskóla.

Hvað er það besta við Ísland?

Fólkið og náttúran.

Kanntu á þvottavél?

Já nokkuð góð á þvottavélar!

Ef þú ættir eina ósk, Íslendingum til hagsbóta, hver væri hún?

Óskin um friðsæla og farsæla framtíð.

Að þínu mati, hvert er helsta hlutverk forseta Íslands?

Að beita áhrifum sínum í opinberri umræðu til að standa vörð um þau grunngildi sem íslenskt samfélag hefur byggt á allt frá lýðveldisstofnun – lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Að vernda undirstöður samfélagsins – menntun og menningu – en tryggja um leið að fjölbreytnin fái að blómstra. Og tala gegn skautun – tala til þjóðarinnar allrar.

Síðan er það klárt að forseti hefur það hlutverk að tryggja að það sé starfhæf ríkisstjórn. Hann getur skotið málum til þjóðarinnar séu þau stór og líkleg til að hafa langvarandi eða grundvallaráhrif á samfélagið eða það hefur myndast gjá milli þings og þjóðar. Forseti þarf að geta hafið sig yfir dagleg viðfangsefni stjórnmálanna og tekið ákvarðanir með óhlutdrægum hætti. Og forseti þarf að gæta hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi – ekki síst á viðsjárverðum tímum og vera góður fulltrúi þjóðarinnar og menningarinnar hvert á land sem hann kemur.

Borðarðu þorramat?

Já ég borða þorramat og lundabaggi er mitt uppáhald.

Ertu rómantísk/ur?

Kannski má segja að ég sé hversdagsrómantíker.

Í stuttu máli; hvers vegna ætti að kjósa þig til embættis forseta Íslands?

Ég trúi því að ég hafi bæði reynslu og þekkingu til að bera sem nýtist í þessu embætti. Ég hef fengið að kynnast landi og þjóð, farið um allt land og verið fulltrúi þess á alþjóðlegum vettvangi. Ég þekki ágætlega gangverk samfélagsins og menningu. Og fyrst og fremst vil ég vinna þjóðinni gagn því að mér þykir vænt um fólkið í landinu. Kannski er það mikilvægast af öllu fyrir forseta lýðveldisins.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -