Hljómsveitin Kimono mun spila á tónleikum um helgina en þetta er fyrsta skipti sem sveitin spilar síðan árið 2015.
Tónleikarnir sem sveitin spilar á eru ekki af verri endanum en um er að ræða tónleika harðkjarnasveitarinnar I Adapt en sveitin hóf að spila aftur saman fyrr á árinu og hafa aðdáendur rokktónlistar heldur betur notið sín á tónleikum þeirra hingað til. Með þeim munu svo Duft, CXIII spila auk Kimono en tónleikarnir fara fram í Iðnó næsta laugardag.
Kimono er eitt af þekktustu sveitum krúttrokksins svokallaða sem reið yfir Ísland rétt fyrir hrunið árið 2008 og gaf sveitin út fjórar breiðskífur sem allar þóttu mjög góðar.
„Tónlist kimono er göldrótt og það var eiginlega ómögulegt að segja hvernig og af hverju. Hún bara var svona og meðlimir hljómsveitarinnar eins og í leiðslu; lífsins ómögulegt að semja eitthvað annað en sálarskekjandi snilld. Tónleikar kimono voru síðan jafn gírandi og þeir voru taugatrekkjandi. Allt gat gerst. Hvernig fóru þau að þessu? Mögulega vita þau það ekki sjálf,“ segir í tilkynningu um tónleikana.