Gunnhildur segir að hún hafi áður gefið út tónlist með öðrum en að Alice sé fyrsta lagið sem hún gefur undir eigin nafni.
„Þetta er fyrsta sóló-útgáfan mín. Fyrsta skipti sem ég gef út lag bara ein og sjálf, undir eigin nafni. Eða eigin listamannsnafni allavega. Ég hef áður gefið út tónlist með öðrum og unnið tónlist og hljóðmyndir fyrir leikverk og slíkt. Eitt verk sem ég gerði rataði í leiksýningu leikhóps sem starfar í Bandaríkjunum og Noregi. Það verk hefur núna fengið að hljóma í þeirri sýningu í New York og fleiri stöðum í Bandaríkjunum, og Noregi. Það er auðvitað mjög skemmtilegt. “
En um hvað er Alice?
„Ég vil helst leyfa hverjum og einum að túlka tónlistina mína eftir eigin höfði. En ég get sagt að það er mikill söknuður í því. Það fjallar um það sem þú saknar mest, allt sem þú hefðir átt að segja en sagðir ekki. Einhvern horfinn tíma og hjartasár. En hver er Alice? Ég læt það bara liggja á milli hluta. Kveikjan að textanum var samt gamla og góða Living Next Door to Alice með Smokie. Ég var í einhverri stíflu á þessum tíma og heyrði lagahöfund segja að það virkaði oft vel til að koma sér af stað að semja texta út frá texta annars lags. Af einhverjum ástæðum kom þetta lag strax upp í hugann og allt fór að flæða. Mitt lag er auðvitað gjörólíkt hinu, en þarna kom samt einhver hugmynd. Hvað gerist þegar Alice er horfin á braut?“
Aðspurð hvort stefnan sé tekin á plötuútgáfu, svarar Gunnhildur því játandi.
„Já, það er stefnan. Ég lúri á alveg dálítilli hrúgu af lögum sem ég er að vinna að því að klára og koma saman í plötu.“
Gunnhildur segir erfitt að svara spurningu Mannlífs um það hverjir hennar áhrifavaldar eru, enda séu þeir margir.
„Þetta er alltaf svolítið erfið spurning. Þeir eru margir og ég hef fengið innblástur úr svo mörgum áttum í gegnum tíðina. En ég verð að nefna Kate Bush, hún er einhvern veginn alltaf þarna yfir og allt um kring. Mér líður næstum því eins og ég þekki hana, við höfum verið samferða svo lengi og tónlistin hennar hefur alltaf haft djúpstæð áhrif á mig. Svo hlusta ég mikið á David Bowie, finnst ég alltaf geta uppgötvað eitthvað nýtt í tónlistinni hans og elska ólíku tímabilin. Finnst textarnir líka ofboðslega skemmtilegir. Svo get ég alltaf nefnt Nick Cave. Ekki lítið sem ég hef hlustað á hann í gegnum tíðina og bæði lög og textar hreyfa alltaf við mér. Hvílíkur sögumaður. Það eru auðvitað margir hér heima líka, en ég verð að nefna Emilíönu Torrini. Tónlistin hennar á sérstakan stað í hjarta mínu.“
Hér má hlusta á Alice: