Magnús Þór Sigmundsson, einn dáðasti tónlistarmaður Íslands, greindist með krabbamein fyrir sjö árum síðan en hann greinir frá þessu í viðtali á RÚV en þar ræðir hann einnig um þegar hann reyndi að slá í gegn erlendis með hljómsveitinni Change.
„Við fengum tækifæri til að fara í toppstúdíó til að vinna með pródúser og svona. Þetta var rosalega fínt og skemmtilegt líf,“ sagði Magnús. „Við vorum allir komnir þarna út um ‘74 og vorum ‘74, ‘75 og einhvern part af ‘76. Svo fóru allir heim um jólin en ég ákvað að fara ekki heim því mig langaði ekki heim,“ og kjölfarið tók hann upp og gaf út plötuna Still Photographs en hún var að koma út á streymisveitum.
Lifir fyrir hvern lifandi dag
En um krabbameinið segir Magnús að það hafi greinst í blöðruhálskirtli og hann hafi verið sendur til Svíþjóðar til frekari rannsókna og í þeim kom í ljós að krabbameinið hafi dreift sér í hryggjarlið.
„Sem voru ekki góðar fréttir. Ég var sendur í geislun í sjö vikur sem var dálítið „töff“ tímabil. Maður verður þreyttur og úrvinda og kvíðinn auðvitað.“
„Ég ákvað að taka æðruleysið á þetta og gerði samning við hryggjarliðinn,“ sagði Magnús um málið í Rokklandi á Rás 2. „Ég sagði við krabbameinið: „Þú ert í þessu húsi. Þú mátt vera þarna en ég vil ekki að þú sért að æða út um allt. Ég sætti mig við að þú sért þarna, ég skal vera með þér í því, en ég vil ekki að þú sért að þvælast. Síðan hef ég bara haldið haus. Þetta er spurning um það.“
„Ég sætti mig bara við þetta. Maður getur ekki farið fram á það í lífinu að það gangi allt hjá manni í haginn,“ sagði Magnús. „Maður verður að passa sig að fara ekki fram úr sér og skilja sjálfan sig eftir í örvæntingarpolli og eftirsjá. Það bara gengur ekki. Þú lifir fyrir hvern lifandi dag og reynir að gera það besta úr honum.“