Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Kristinn Hrafnsson sammála Ingibjörgu: „Realpólitíkusar hugsa ekkert um tilfinningasemi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks horfði á Silfur Egils á Rúv í gærkvöldi en þar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir meðal viðmælanda. Tjáði Kristinn sig á Facebook og sagðist sammála Ingibjörgu Sólrúnu varðandi bestu lausnina í stríðinu í Úkraínu.

„Mér þótti áhugavert að heyra Ingibjörgu Sólrúnu nefna í Silfrinu hina augljósu lausn til að enda stríðið í Úkraínu og stöðva blóðbaðið sem er nú þegar orðið alltof mikið og gæti orðið miklu hryllilegra. Leyfa Rússunum í Krím sem kusu að tilheyra Rússlandi að tilheyra Rússlandi, leyfum Rússunum í Donetsk og Luhansk að vera sjálfstjórnarsvæði í friði og fá Úkraínustjórn til að lýsa því yfir að landið verði utan hernaðarbandalaga.“

Því næst kemur Kristinn með hugtakið „realpólitíkus“ sem hann segir Ingibjörgu vera.

„Nú nú, þarna gæti einhver sagt að Pútín hefði þar með náð til Ingibjargar en hún er svo sem ekki að segja annað en aðrir realpólitíkusar hafa sagt árum saman m.a. Henry Kissinger í grein árið 2014. Realpólitíkusar hugsa ekkert um tilfinningasemi og er slétt sama um hin helgu gildi sem voru til umræðu í Silfrinu (lýðræði, mannréttindi, frelsi) enda nokkuð ljóst að Kissinger hefur aldrei látið slíka smámuni þvælast fyrir sér.

En mannúðarsjónarmið geta stundum rekið mann í raunsæið og þetta er líklegast rétt mat hjá Ingibjörgu. Það eru ekki margir aðrir valkostir aðrir en að sjá blóðið renna í stríðum straumum og flóttamenn flæmast úr heimalandi sínu í milljónatali.“

Fyrir þá sem eru ósammála eftirgjöf til Rússa, bendir Kristinn á að bestu friðarsamningarnir séu þeir sem skilaj alla eftir óánægða.

„Þarna gætu einhverjir sagt að Pútín fengi allt of mikið útúr þessu og eftirgjöfin sé of stór. Bestu friðarsamningarnir eru þeir sem skilja alla eftir óánægða. Krímskagi er hvort eð er farinn fyrir löngu. Hæglega gæti orðið til friðarauka til langframa fyrir Úkraínumenn að losna við rússneskumælandi sovétrómantíkusana handan við girðingu og staða Úkraínu utan NATO er ekki flóknari en að gera þá að ópinberum leynifélögum í bandalaginu, eins og Svíar og Finnar hafa verið árum saman. Það mætti selja þeim vopn í stórum stíl til varnar, m.a. gætu Svíar selt þeim Gripen herþoturnar sem þeir losna hvort eð er illa við nema greiða með þeim mútur.“

- Auglýsing -

Þá bendir ritstjórinn skeleggi á að hreyfingar á landamæralínum sé engin nýlenda í nærsögunni og tekur til nokkur dæmi.

„Hreyfing á landamæralínum er ekkert sérlega mikil vanhelgun og hefur gerst ítrekað í nærsögunni. Það þótti ekki tiltökumál að sneiða af Serbíu, ekki var sérlega mikið uppistand þó Tyrkir hertækju Afrín hérað í Sýrlandi, drápu þar fjölda manna – þar á meðal Hauk Hilmarsson, flæmdu aðra íbúa af heimilum sínum og fylltu þau með liðsmönnum hreyfinga sem eru næstibær við ISIS. Og af því helmingur íbúa nyrst á Írlandi vildi tilheyra Bretlandi varð til sneiðingur af eyjunni grænu sem hefur viðhaldist, með talsverðum ófriði að vísu, býsna lengi.“
Að lokum talar Kristinn um nauðsyn þess að ræða um þá hluti sem við viljum vernda í breyttum heimi.
„Í Silfrinu mælti Brynja Huld viturlega um að það yrði að endurskoða öryggisstefnu landsins og Þorgerður Katrín hefur svo sem rétt fyrir sér líka að öryggis- og varnarmál eru ekki lengur skilgreind eingöngu útfrá dátum, sprengjum, stálfuglum og vígaflotum. Auðvitað er löngu tímabært að ræða stöðu okkar í breyttum heimi. Þó fyrr hefði verið. Það væri þá einnig gustuk að ræða þá samhliða opinskátt þessi heilögu gildi sem eiga að vera grundvöllur þess sem við viljum verja, það er lýðræðið, mannréttindin og frelsið.
Það er nú heldur betur eitt og annað þar sem hefur ekki verið „á dagskrá“ en þyrfti nauðsynlega að ræða.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -