Kristinn Hrafnsson er kominn fram með stórgóða hugmynd að nýjum þjóðfána Íslands.
Ritstjóri Wikileaks, Kristinn Hrafnsson skrifaði færslu á Facebook en þar birtir hann hugmynd sína að nýjum þjóðfána fyrir Ísland. Hugmyndina fékk Kristinn frá nýjum fána hinsegin samfélagsins, sem er með einhvers konar klauf en ritstjórinn segir þetta minna svolítið á þjóðfána Suður-Afríku. „Þessi nýi fáni gæti farið vel með nýju stjórnarskránni sem þjóðin vill en lýðræðislega kjörnir undirmenn hennar ekki.,“ skrifaði Kristinn meðal annars í færslunni sem lesa má í heild sinni hér fyrir neðan:
„Fáni fjölbreytileikans blaktir nú víða í tilefni hinsegin daga og er orðin býsna skrautlegur enda fyrir löngu ljóst að regnbogi meistarans dygði ekki til að dekka öll afbrigði hinna nýju kynsegin norma. Nýi fáninn er með skemmtilega klauf og minnir dálítið á þjóðfána Suður-Afríku sem þó er vitaskuld með mun færri liti. Þetta form þjóðfána finnst mér hins vegar býsna gott og get vel séð fyrir mér að við afnemum kristna krossinn úr okkar fána til virðingar við alla þá sem aðhyllast ekki jesúkirkjuna sem svo hefur fjarað undan á þessari öld að eftir örfá ár verður ríkiskirkjan (Þjóðkirkjan) minnihlutasöfnuður í landinu. Þessi nýi fáni gæti farið vel með nýju stjórnarskránni sem þjóðin vill en lýðræðislega kjörnir undirmenn hennar ekki. Þetta gæti orðið gunnfáni þeirra sem vilja róttæka endurskoðun á okkar samfélagi.