Gönguhópar Ferðafélags Íslands eru margir að hefja göngu sína á næstu vikum. Þar má finna eitthvað við flestra hæfi. Á meðal þeirra hópa sem eru að kynna dagskrá sína er Tifað á tinda sem er með kynningarfund á Teams í kl. 20 í kvöld.
Lagt er upp með göngur við hæfi allra þeirra sem búa yfir lágamarksgetu til að klífa fjöll. Gengið er á hraða hægasta manns og veturinn notaður til þess að byggja upp þrek til þess að takast á hendur erfiðari göngur eins og um þjóðleiðina gömlu um Svínaskarð og á Vikrafell í Borgarfirði.
Á meðal annarra fjalla og fáfarinna má nefna Sköflung, Lat og Snókafell. Helgargöngurnar sem standa fram í maí eru alls 17. Lokaferðin og útskrift verður upp í Borgarfjörð í maí þar sem gist verður í eina nótt.
Göngur eru einhver besta leið til að styrkja sál og líkama. Fjöldi fólks hefur áunnið sér aukin lífsgæði og sótt sér styrk með reglubundnum gönguferðum. Þá má ekki gleyma þeim frábæra félagsskap og vinaböndum sem gjarnan myndast í hópunum.
Höfundur er fararstjóri í gönguhópnum Tifað á tinda.