Luiza Rozova er átján ára nemi í St. Petersburg en talið er að hún sé laungetin dóttir Vladimir Putin. Móðir hennar, Svetlana Krivonogikh er milljarðamæringur sem eitt sinn vann við húsþrif en er nú einn eiganda rússnesks banka.
Hvorki Svetlana né Putin hafa staðfest opinberlega að hann sé faðir Luizu en móðir hennar hefur þó gefið það til kynna í viðtölum.
Luiza er vinsæl á samfélagsmiðlum og eru um 91 þúsund manns sem fylgja henni á Instagram þar sem hún deilir glæstum lífstíl sínum, dýrum merkjavörum og ferðalögum. Almenningur virðist þó ekki ýkja ánægður með Luizu þessa dagana og hefur hún fengið ótal skilaboða og athugasemda með hótunum og illum orðum í hennar garð. Henni er ýmist kennt um að stoppa ekki meintan föður sinn af eða dæmd fyrir að sýna frá dýrum lífstíl á meðan stríð herjar á heiminn, „Á meðan þú sýnir þig í Monaco er fólk af þinni kynslóð að deyja í Úkraínu vegna föður þíns,“ segir einn fylgjandi Luizu.