Tónlistarmaðurinn ástsæli Bubbi Morthens segir frá því í nýjum hlaðvarpsþætti Snorra Björnssonar hvernig líf hans breyttist eftir að hann hitti geranda sinn og fyrirgaf honum í fyrra. Segir hann líf sitt fram að þessu hafa litast verulega af áfallinu.
„Nánd mín við kvenfólk hún var ekki til. Ég átti enga nánd. En ég gat sofið endalaust hjá stelpum. Um leið og það var nánd var þessi einstaklingur á milli okkar,“ segir Bubbi. Hann segist hafa verið misnotaður fjórtán ára gamall en var hann 66 ára þegar hann hitti gerandann aftur. „Ég fæ hann til að mæta mér hjá þerapistanum mínum þar sem hann hafði neitað öllu (áður),“ Þegar hann hitti gerandann sinn aftur hafi hann játað brot sín og einnig beðið hann afsökunar en Bubbi segir afsökunarbeiðnina ekki hafa skipt hann neinu máli. „En ég fyrirgaf honum og um leið og ég gerði það fór ég heill út. Ég fór út í bíl að gráta, ég var bara heill og líf mitt hefur breyst eftir það,“ segir Bubbi en viðtalið má hlusta á í heild sinni hér að neðan.