Ég kynntist Ósk þegar dætur okkar urðu góðar vinkonur í leikskóla. Þótt hún flytti úr hverfinu héldu dæturnar áfram að vilja hittast og smám saman jókst vinátta okkar mæðranna. Þegar stelpurnar voru orðnar fullorðnar og vinátta þeirra orðin að kunningsskap, vorum við Ósk enn góðar vinkonur. Hún gat verið dásamleg en lífið fór ekki mildum höndum um hana og smám saman fylltist hún reiði og hatri út í allt og alla. Með tímanum varð ég hrædd við hana og þeirri stund fegnust þegar hún sleit vináttu við mig.
Æska Óskar var ekki auðveld og þegar við kynntumst talað hún hvorki við foreldra sín né systkini. Hún var ekki heldur heppin í ástum. Sambúðin við barnsföðurinn var afar erfið og þau rifust mikið, sagði hún mér. Hatrið var orðið svo mikið þeirra á milli að þegar þau loks skildu sleit hann sambandi við dótturina líka, treysti sér ekki til að koma nálægt neinu sem tengdist Ósk. Föðurfólk dótturinnar hvarf líka en þetta fólk talaði mjög illa um Ósk og sagði við alla að þau fengju ekki að umgangast stelpuna sem var ekki rétt. Þau höfðu aldrei sýnt barnabarninu nokkurn áhuga en það kom betur út fyrir þau gagnvart umhverfinu að kenna Ósk um. Auðvitað var erfitt fyrir Ósk að fá aldrei aðstoð með barnið, hún átti í raun ekkert bakland og þurfti að ráða barnapíur í gegnum tíðina. Dætur okkar urðu miklar samlokur og ég leyfði stelpunni hennar oft að gista hjá mér sem aðstoðaði Ósk mikið því hún vann baki brotnu.
Þegar stelpurnar voru tíu ára kynntist Ósk manni sem hún fór að vera með og þær mæðgur hurfu nánast sjónum í tvö eða þrjú ár. Það angraði mig ekkert, mér hefur alltaf fundist rangt að mæla vináttu í magni, kýs frekar að mæla hana í gæðum, en dóttir mín saknaði vinkonu sinnar.
Ósk skildi við manninn og við tókum upp samband aftur en þá höfðu dætur okkar vaxið hvor frá annarri og eignast nýjar bestu vinkonur. Þeim fannst gaman að hittast en allt var samt breytt.
Rúmu ári seinna eignaðist Ósk barn með manni sem hún giftist þótt hún hefði oft lýst því yfir að hún ætlaði aldrei að gifta sig. Það hjónaband fór líka í hundana eftir nokkur ár. Við tvær vorum samt alltaf í einhverju sambandi á meðan það stóð.
„… og þær mæðgur hurfu nánast sjónum í tvö eða þrjú ár. Það angraði mig ekkert, mér hefur alltaf fundist rangt að mæla vináttu í magni, kýs frekar að mæla hana í gæðum, en dóttir mín saknaði vinkonu sinnar.“
Drykkfelld en „ósnobbuð“
Ósk breyttist heilmikið á næstu árum og drakk til dæmis mikið. Og þegar hún drakk varð hún svo beisk og fúl, allir voru vondir við hana og hún ætlaði að hefna sín. Þetta voru fyrrverandi makar, vinir, vinnuveitendur … bara allir sem henni fannst hún eiga sökótt við og oft þurfti ekki mikið til. Seinni barnsfaðir hennar hafði haft af henni helminginn af öllu sem Ósk hafði átt þegar þau fóru að vera saman en hún hafði ekki viljað styggja hann á sínum tíma með því að láta gera kaupmála. Hún ætlaði að gera honum allt til miska.
Ég var þarna orðin svolítið hrædd við hana, get verið svo meðvirk og finnst erfitt að umgangast mislynt fólk. Mér þótti vænt um Ósk og er trygglynd að eðlisfari svo það kom ekki til greina að segja skilið við hana þótt mér líkaði sífellt verr við hana.
Ég fór bara einu sinni eða tvisvar með henni á djammið og svo gat ég ekki hugsað mér það oftar, hún valdi ógeðslega bari með „alvörufólki“ en ekki snobbuðu pakki eins og ég vildi umgangast, að hennar mati. Hún hafði greinilega lágt sjálfsmat fyrst hún samsamaði sig dreggjum samfélagsins.
Áður fyrr hittumst við aðallega með dæturnar heima hjá hvor annarri. Ég hafði því enga „djammreynslu“ af henni og vildi miklu frekar gera eitthvað skemmtilegt með manninum mínum en að þræða ógeðslega bari með henni.
Heilög og betri en aðrir
Svo frelsaðist Ósk óvænt og gekk í sértrúarsöfnuð sem þykir frekar meinlaus en miðað við margt sem Ósk sagði hrifin, leist mér ekki á blikuna. Þarna grasseruðu miklir fordómar undir niðri. Þarna var Ósk í nokkur ár og reyndi alltaf reglulega að fá mig til að koma með sér á samkomur. Börnin hennar harðneituðu því sem ég veit að henni sárnaði því hún trúði því einlæglega að með því að frelsast myndu þau lenda í himnaríki með henni þegar þau dæju. Annars væri það bara helvíti.
Einn daginn komst hún upp á kant við yfirmenn safnaðarins, allt sprakk í loft upp og hún yfirgaf þá í fússi. Eina sem ég fékk að vita var að allir þarna væru fífl … Ósk hélt áfram að vera trúuð en tileinkaði sér ekkert af kærleiksboðskapnum, heldur var bara viss um að hún stæði svo miklu framar öðrum vegna trúar sinnar. Hún „vissi“ líka að guð myndi aðstoða hana við að láta illa fara fyrir óvinum hennar, þeir fengju sjúkdóma, misstu vinnuna og annað slíkt.
Hún hafði kynnst manni úr söfnuðinum og farið að vera með honum. Hún sleit sambandinu við hann á sama tíma. Sem betur fer hafði hún alltaf frestað því að giftast honum þrátt fyrir mikla hvatningu til þess. En sambýlismanninum fyrrverandi tókst að hefna sín því hann hætti að borga af láni sem hún hafði tekið fyrir hann því hann var gjaldþrota. Lánið var nú ekki mjög hátt, hún slapp með skrekkinn en þarna var kominn enn einn til að hata.
Hefndarþorsti
Ósk var ein þeirra sem fór illa út úr bankahruninu. Hún missti vinnuna og lenti í vandræðum með að borga af íbúðinni. Á endanum var íbúðin boðin upp og nýlegur bíllinn dreginn á brott. Þetta var svo sorglegt, Ósk var mjög hagsýn og tók enga áhættu í fjármálum en þarna var ekki farið í manngreinarálit og ótrúlega margir töpuðu öllu sínu af því að þeir treystu bönkunum.
Ósk gafst upp. Henni fannst ekki taka því að byrja upp á nýtt eina ferðina enn, það yrði einhver eða eitthvað til að hirða allt af henni, þannig hefði það verið og myndi alltaf verða. Hún flutti í leiguíbúð og fékk atvinnuleysisbætur. Mér fannst mjög erfitt að umgangast hana á þessum tíma. Hún var bálreið út í allt og alla og fannst heimurinn skulda sér svo mikið.
Vissulega sótti hún um störf og fékk tvö eða þrjú en hélst ekki lengi í þeim. Hún var farin að drekka enn meira en áður, hvernig svo sem hún fjármagnaði það, og þessi kona sem áður hugsaði vel um útlitið gekk í sömu fötunum dögum saman, svaf stundum í þeim, grunar mig, og lyktaði eftir því. Hún var líklega þunglynd og hefði þurft hjálp en reiðin var samt alltaf depurðinni yfirsterkari.
Ég reyndi að stappa í hana stálinu en þorði ekki að segja henni að rífa sig upp og hætta að vera aumingi sem mig langaði að gera. Ég óttaðist bræði hennar og hefndarþorsta. Hún kunni vel þá list að koma illu til leiðar og ég hafði heyrt margar sögur hennar. Í einu tilfelli hafði henni tekist að gera fyrrum samstarfskonu lífið mjög leitt með því að siga á hana bæði barnavernd og lögreglu án þess að konan hefði nokkuð gert af sér. Jú, hún hafði stungið undan Ósk og átti þetta skilið. Þetta er sennilega uppspuni, bullsaga til að hræða mig og aðra frá því að gera nokkuð á hennar hlut.
Undrun og léttir
Þegar Ósk sleit sambandi við mig varð ég undrandi og hafði ekki hugmynd um hvað ég hafði gert henni. Undir það síðasta hafði hún kvartað yfir því að ég væri léleg vinkona. Ég vann mikið og hafði heldur ekki sömu þörf og hún fyrir að spjalla oft og mikið. Við höfðum fyrir löngu þroskast hvor í sína áttina og sennilega fannst henni ég hundleiðinleg því ég hugsaði varla um annað en barnabarnið mitt nýfædda.
Þegar ég hafði ekki heyrt í henni í nokkra daga prófaði ég að hringja. Hún svaraði ekki og það var ekki líkt henni. Ég prófaði daginn eftir en ekkert svar. Svo sá ég að hún hafði blokkað mig á Facebook og þá vissi ég að við vorum ekki lengur vinkonur. Eftir að hafa orðið hissa í fyrstu og velt fyrir mér hvað ég hefði mögulega gert henni fór ég að finna fyrir létti. Það er erfitt að vera í svona samskiptum og hafa ekki kjarkinn til að forða sér.
„Hún svaraði ekki og það var ekki líkt henni. Ég prófaði daginn eftir en ekkert svar. Svo sá ég að hún hafði blokkað mig á Facebook og þá vissi ég að við vorum ekki lengur vinkonur.“
Nú eru liðin nokkur ár og ég frétti sjaldan af Ósk. Ég veit þó að hún er enn reið út í allt og alla og slítur stundum sambandi við börnin sín í vikur eða mánuði. Dóttir hennar, æskuvinkona dóttur minnar, þorir til dæmis ekki að tala við mig lengur af ótta við að mamma hennar frétti það.
Ég óska gömlu vinkonu minni alls góðs í lífinu og vona að hún nái sér á strik en ég tel afar ólíklegt að við verðum nokkurn tíma aftur vinkonur. Í raun prísa ég mig sæla fyrir að hafa sloppið sæmilega vel.