Breski miðillinn The Sun greinir frá því í dag að minna þekkt einkenni Omíkron-afbrigðisins gæti svipað mjög til einkenna matareitrunar og sjúklingar gætu þannig ef til vill ekki gert sér grein fyrir smitinu.
Í dag eru algengustu einkenni Omíkron-smits talin vera nokkuð hefðbundin einkenni kvefpestar. Þau þrjú einkenni sem voru hvað algengust hjá Covid-smituðum einstaklingum voru hósti, hiti og skert bragð- og/eða lyktarskyn. Í Bretlandi virðast þau þrjú einkenni sem hvað oftast fylgja Omíkron-afbrigðinu hinsvegar vera hósti, þreyta og höfuðverkur.
Síðustu misseri hefur það komið æ betur í ljós að minna þekkt einkenni sem svipar til matareitrunar geti einnig fylgt smitinu.
Dr. Bill Admire segir að Delta-afbrigðinu fylgi nær alltaf einkenni í öndunarvegi. Hinsvegar væri tilfellum Omíkron-smitaðra með einkenni frá meltingarvegi að fjölga verulega. Hann sagði að eftirfarandi einkenni gætu því öll bent til Covid-smits:
Ógleði
Kviðverkir
Uppköst
Lítil matarlyst
Niðurgangur
Sérfræðingar hafa sagt að ógleði og uppköst séu ekki lykileinkenni Covid-smits. Hinsvegar sé ekki svo óalgengt að þessi einkenni komi fram samhliða öðrum einkennum veirunnar. Þannig eru ógleði og uppköst tvö algengustu einkennin til þess að koma fram samhliða lykileinkennum á borð við eymsli í hálsi eða missi á bragð- og lyktarskyni.
Ástæðan fyrir einkennum frá meltingarvegi er sögð geta hugsanlega verið bólgusvar líkamans við veirusýkingunni.