Það var mikið um dýrðir og margt um manninn við lokaathöfn alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg í gærkvöldi. Hápunktur athafnarinnar var þegar dómnefndin tilkynnti að íslenska kvikmyndin, Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson, hefði hlotið aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni. Verðlaunaféð er eitt af þeim stæðstu í þessum geira, rétt rúmlega fimm milljón króna.
Kvikmyndahátíðin í Gautaborg er helsta kvikmyndahátíð Norðurlandanna. Árlega sækja á annað þúsund fagaðilar úr alþjóðlegum heimi kvikmynda hátíðina og gestir á sýningum eru á annað hundrað þúsund talsins.
Rúnar Rúnarsson leikstjóri var veðurtepptur á Íslandi og komast því ekki á lokahóf hátíðarinnar.
„Kvikmyndir eru teymisvinna og hef ég verið lánsamur í gegnum tíðina að vinna með frábæru fólki. Ég er stoltur af þeim og því sem við höfum áorkað saman. Íslensk kvikmyndagerð hefur verið á miklu skriði og hefur það aðeins geta gerst vegna þess að jarðvegurinn, sem varð til við samvinnu ráðamanna, einkaaðila og listafólks, er til staðar.
En nú eru blikkur á lofti og ef kvikmyndasjóður verður fjársveltur næstu ár að þá mun þetta mikla uppbyggingarstarf fara í súginn. Vona að ný ríkisstjórn vindi ofan af þessari þróun,“ sagði Rúnar eftir að tilkynnt var um verðlaunin.
Með aðalhlutverk fara Elín Hall, Katla Njálsdóttir, Mikael Kaaber, Baldur Einarsson, Gunnar Kristjánsson og Ágúst Wigum.