Kvikmyndin Ljósbrot heldur áfram að safna að sér verðlaunum en Ljósbrot er nýjasta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar en hann hefur þótt einn besti leikstjóri Íslands síðan hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna árið 2005 fyrir bestu leiknu stuttmyndina.
En um helgina hlaut kvikmyndin þrrenn verðlaun, meðal annars aðalverðlaun á kvikmyndahátíðinni Cinehill í Króatíu. „Dómnefndin fagnar myndinni fyrir ljóðræna og hógværa kvikmyndalist. Fyrir fíngerðan leik og frásagnarlist, þar sem tekist er á við óvænt drama með þeim hætti að sagan og frumlegar persónur fanga áhorfendur,“ sagði Danilo Šerbedžija, formaður dómnefndar um myndina en hún var frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni og hefur fengið góða dóma um heim allan.
Ljósbrot gerist á fallegum vordegi þegar líf Unu snýst á hliðina á svipstundu. Upphefst þá rússíbanaferð tilfinninga, þar sem mörkin milli hláturs og gráts, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr.
Leik- og söngkonan Elín Hall fer með aðalhlutverk myndarinnar en henni til stuðnings eru Katla Njálsdóttir, Mikael Kaaber, Baldur Einarsson, Gunnar Kristjánsson og Ágúst Wigum.