Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

London, París, Róm: Hvert ættir þú að ferðast í sumar – út frá stjörnumerki þínu?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir síðustu tvö ár bíða þess eflaust margir óþreyjufullir að komast í ógleymanlegt frí. En hvert skal halda? Hinir óákveðnu þurfa ekki að örvænta lengur, því hér er listi yfir spennandi áfangastaði sem eru sérvaldir fyrir hvert og eitt stjörnumerki. Það er að minnsta kosti ein aðferð til að slá á valkvíðann.

Ég mana ykkur.

 

Hrútur

Hrútar þurfa spennu, eitthvað óvænt sem veitir þeim innblástur og heldur þeim við efnið. Þeir þurfa helst að hafa nóg fyrir stafni og eitthvað til að eyða orku sinni í.

Áfangastaður: Machu Picchu í Perú

Þarna geta hrútar aldeilis lent í ævintýrum og fundið sér nóg að skoða og gera. Þar sem hrútur er eldmerki, hentar þeim vel að vera í hita, sem gerir áfangastaðinn enn heppilegri.

- Auglýsing -

 

Naut

Í fríinu þurfa naut að geta notið lífsins lystisemda. Það skiptir öllu máli fyrir þau að ná bæði nauðsynlegri hvíld og örvun í gegnum öll skynfæri. Þau eru nautnaseggir í mat og drykk, og vilja að allt líti vel út. Þau hafa næmt fegurðarskyn og elska að skoða fallega list, hvort sem er í arkitektúr eða einhverju öðru formi.

Áfangastaður: Flórens á Ítalíu

- Auglýsing -

Flórens er fullkominn áfangastaður fyrir naut! Matarmenningin er rík, hitinn þægilegur og svo er borgin alveg ótrúlega falleg. Þar er hægt að taka því rólega og njóta lífsins, sem og ganga um borgina og njóta þess að skoða það sem fyrir augu ber.

 

Tvíburi

Tvíburar elska að ferðast til lifandi og spennandi staða, þar sem mikið er af fólki og nóg að upplifa. Þeir kunna afskaplega vel við sig í margmenni, að hluta til vegna þess að þeir eru afar félagslyndir en að hluta til vegna þess að þeir hafa lúmskt gaman af því að týnast í fjöldanum. Það hefur einhver áhyggjuminnkandi áhrif á þá.

Áfangastaður: New York í Bandaríkjunum

Í New York geta tvíburar aldeilis fengið útrás á allan mögulegan og ómögulegan hátt. Þar er allt til, borgin er iðandi af lífi og í henni er nær ómögulegt að láta sér leiðast. Fullkomið fyrir tvíbura sem þyrstir í líf, fjör og spennu.

 

Krabbi

Krabbarnir, elsku molarnir, vilja frið, ró og dass af dekri. Þeir þurfa á því að halda að losa um spennu og áhyggjur þar sem þeir upplifa tímaleysi og algjöra slökun. Þeir eru ljúfir og viðkvæmir og þrá að komast á stað þar sem þeir upplifa jafnvægi. Þeim er líka mikilvægt að vera í nálægð við fagra og umvefjandi náttúru.

Áfangastaður: Balí í Indónesíu

Það eiginlega getur ekki klikkað fyrir krabba að leggja land undir fót og heimsækja Balí. Ferðalangar eru almennt sammála um að þarna sé um að ræða algjöra paradís. Það er ekki óalgengt að fólk sæki í Balí í tengslum við jóga og hugleiðslu, en þar er líka margt við að vera og njóta – náttúrufegurðin er ógleymanleg.

 

Ljón

Ljónum leiðist íburður hreint ekki og elska að upplifa sig sem konungborin og baða sig upp úr munaði. Sem lifandi eldmerki kunna þau vel við að ferðast á spennandi staði þar sem nóg er um að vera. Þau eru forvitin að eðlisfari og vilja láta koma sér á óvart.

Áfangastaður: Dúbaí í Sameinuðu Arabísku furstadæmunum

Borgin Dúbaí er passlega glitrandi og íburðarmikil fyrir ljón. Þar vantar heldur ekki heppilega staði fyrir glæsilegar myndatökur, þar sem ljónin geta reigt sig, teygt og hrist makkann. Í Dúbaí er líka margt við að vera og upplifa. Hitinn hentar ljónunum afar vel.

 

Meyja

Meyjur vilja nýta tímann í fríinu til að skoða sig um og upplifa allt það sem áfangastaðurinn hefur upp á að bjóða. Það þarf að vera einhver vitræn örvun í boði, til að mynda út frá sögulegu sjónarhorni eða í formi spennandi arkitektúrs og listar. Meyjur vilja læra eitthvað á ferðalögum sínum. Þar sem þeim hættir þó til að byrja að hegða sér eins og fríið sé í raun vinna, er mikilvægt (bæði fyrir þær sjálfar og þá sem standa þeim næst) að hægt sé að finna sér notalegan stað til að slökkva alveg á sér og slaka á.

Áfangastaður: Barcelona á Spáni

Barcelona er borg sem uppfyllir öll ofangreind skilyrði. Þar er sannarlega nóg við að vera, skoða og læra. Arkitektúr Gaudí; byggingarnar, garðurinn honum samnefndur, La Sagrada Familia-kirkjan og margt fleira mun svala bæði áhuga og lærdómsþorsta meyjunnar. Svo má finna sér dásamlegan stað til að flatmaga, lesa bók og kæla sig í sjónum við strandlengjuna.

 

Vog

Fyrir vogir er yfirleitt skemmtilegast að ferðast til staða sem sameina ríka menningu, áhugaverðan arkitektúr, fræg kennileiti og iðandi mannlíf. Félagslegi þátturinn er þeim mikilvægur og þeim finnst gaman að kynnast nýju fólki. Borg sem vekur áhuga þeirra, með ríka sögu menningar og lista, er tilvalin.

Áfangastaður: Berlín í Þýskalandi

Berlín á langa og afar áhugaverða sögu. Þar mætist gamalt og nýtt á spennandi hátt; austrið og vestrið, minjar eftir seinni heimsstyrjöldina og margt fleira. Í borginni eru ótal staðir sem gaman er að skoða, arkitektúr sem vekur áhuga, iðandi mannlíf og áhugaverður suðupottur menningar og skemmtanalífs. Allt saman tilvalið fyrir ferðaþyrstar og forvitnar vogir.

 

Sporðdreki

Sporðdrekar elska óvenjulegri áfangastaði – staði sem eru ekki endilega á topp tíu vinsældalistum eða hlutar af pakkaferðum. Helst vilja sporðdrekar ferðast á staði sem vekja áhuga þeirra og forvitni. Staði þar sem þeim finnst þeir geta rannsakað eitthvað og horfið inn í nýjan heim. Þeir eru ekki smeykir við að prófa nýja hluti þegar kemur að ferðalögum og kunna mjög vel við að umvefja sig náttúru. Þeir mynda tilfinningaleg tengsl við staði og þá sem þar búa. Þeir fá innblástur úr náttúrunni og eflast við að vera nálægt einhverju sem þeir upplifa kraftmikið og stærra en þeir sjálfir.

Áfangastaður: Rúanda

Rúanda er afskaplega spennandi og fallegt land í Afríku. Þetta er til dæmis einn af síðustu stöðunum í heiminum þar sem hægt er að sjá fjallagórillur í sínu náttúrulega umhverfi. Þarna eru líka virk eldfjöll, sem rímar vel við huga og sálarlíf sporðdreka. Náttúran er stórkostleg og mikið kapp er lagt á að vernda hana. Þjóðgarðurinn Volcanoes National Park er ógleymanlegur staður. Þarna geta eflaust margir sporðdrekar hugsað sér að láta sig hverfa vikum saman.

 

Bogmaður

Bogmenn eru án nokkurs vafa stjörnumerkið með mesta ferðaþorstann. Þeir hreinlega þrífast á ferðalögum og nýrri upplifun. Þeir eru lifandi, bjartsýnir og orkumiklir og þurfa á ævintýrum að halda í lífinu. Þeir eru sjálfstæðir og leiðist hreint ekki að ferðast einir; raunar er það draumaferðalagið þeirra, þar sem þeir þurfa ekki að huga að neinum nema þeim sjálfum, geta tekið skyndiákvarðanir í röðum og eiga kost á að eignast nýja félaga á hverjum stað.

Áfangastaður: Taíland

Bogmanni myndi hreint ekki leiðast að skella sér einsamall í bakpokaferðalag um Taíland. Bogmönnum þykir skemmtilegt að læra í gegnum ferðalög og þetta land er fullkomið til þess – með ríka sögu, iðandi menningu og ótrúlega margt til að skoða. Bangkok er afar spennandi borg og svo er náttúrufegurð landsins mikil – eyjan Koh Phi Phi er til að mynda ógleymanleg og svo eru þjóðgarðar í Taílandi sem myndu gera hvern sem er orðlausan.

 

Steingeit

Steingeitur eiga það til að vera dálítið stífar og festast í hausnum á sér; þær vinna mikið, eru metnaðargjarnar og einbeittar. Af þeim ástæðum er mjög mikilvægt að ferðalög hristi dálítið upp í þeim, þær geti slakað á og leyft sér að upplifa eitthvað sem kveikir í þeim á sama tíma og þær hlaða batteríin fyrir óumflýjanleg, komandi átök. Steingeitur ætlast til ákveðinna þæginda og þar sem þær eru sífellt að klífa metorðastiga á einn eða annan hátt líta þær á ferðalög sem visst stöðutákn.

Áfangastaður: Hawaii

Strendur Hawaii eru fullkomnar fyrir steingeitur til að ná að slaka almennilega á. Það sem Hawaii hefur þó fram yfir marga aðra staði sem hafa fallegar sólarstrendur sem eitt af sínum aðalsmerkjum, eru ótal möguleikar til að prófa ýmis ný áhugamál, íþróttir og útivist. Það ætti sannarlega að hrista upp í steingeitunum, halda þeim við efnið og koma í veg fyrir að þeim finnist þær vera að sóa tíma sínum. Auk þess er Hawaii með mjög ríka sögu og menningu, sem er áhugavert að kynna sér og skoða.

 

Vatnsberi

Vatnsberar vilja uppgötva, skoða og skilja. Vitsmunaleg örvun er nauðsynleg fyrir þá og þar eru ferðalög engin undantekning. Þeir eru dálítið óvenjulegir og óhræddir við að fara í öfuga átt við flesta. Ólíkir menningarheimar og samfélög vekja áhuga þeirra og fái þeir að ráða, velja þeir helst að ferðast á staði sem eru fjarlægir og ólíkir heimalandi þeirra. Mannúðarstörf, spíritúalismi og réttindabarátta samfélaga vekur áhuga þeirra.

Áfangastaður: Amazon-frumskógurinn í Ekvador

Þarna er öruggt að forvitnir og fróðleiksfúsir vatnsberar finni eitthvað við sitt hæfi, auk þess að svala ævintýraþörf. Í Amazon-frumskóginum geta vatnsberar, með sinn sérstaka og opna huga, kynnst nýjum menningarheimum og samfélögum manna sem kenna þeim eitthvað nýtt. Þeir gætu líka lært um olíu, námugröft og skógarhögg, sem er allt meðal þess sem ógnar tilvist frumskógarins og þeim samfélögum sem þar búa. Margir vatnsberar myndu líka eflaust vilja prófa að fara í heilunarathöfn hjá andalækni meðal frumbyggja.

 

Fiskar

Fiskar eru tilfinningaríkir og tengdir náttúrunni. Þeim þykir vænt um jörðina og allar þær lífverur sem þar búa. Það virðist ef til vill klisja, en fiskar sækja mikið í áfangastaði við vatn eða sjó. Það er ekki bara út af hinu augljósa, heldur snertir það líka að fiskar eru vatnsmerki. Vegna ástar sinnar á lífverum og umhverfinu myndi mörgum fiskum eflaust þykja eftirsóknarvert að taka að sér einhvers konar sjálfboðaliðastörf á ferðalögum sínum – helst eitthvað sem hefur með náttúru- eða dýravernd að gera. Fiskar eru afar tilfinninganæmir og sækjast eftir því að komast í sem best samband við sitt innra sjálf. Þeir leita gjarnan uppi einhvers konar spíritúalisma á ferðalögum sínum.

Áfangastaður: Indland

Hvaða staður er betri til þess að komast í gott samband við sitt innra sjálf en fæðingarstaður jóga? Indland hefur að sjálfsögðu óteljandi áhugaverða staði til að heimsækja, allt frá stórborgum iðandi af lífi til stórfenglegra stranda í umvefjandi umhverfi. Það eru allar líkur á að fiskarnir velji seinni kostinn, til dæmis í Goa í sunnanverðu Indlandi. Í Kerala má síðan finna ótal vötn og ár, sem er ógleymanlegt að sigla um á húsbáti. Þarna er hægt að njóta dásamlegrar indverskrar matargerðar og bæði náttúran og dýralíf er stórkostlegt. Andaman-eyjar eru síðan rúsínan í pylsuendanum fyrir fiska í leit að ströndum, sjó, fegurð og innblæstri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -