Þegar Vilhjálmur prins giftist háskólakærustu sinni Kate Middleton árið 2011 höfðu mjög fáir heyrt um upprennandi leikkonuna Meghan Markle. Á þeim tíma hafði Meghan engin tengsl við konungsfjölskylduna og vann hún hörðum höndum að því að landa hlutverkum í sjónvarpsþáttum. Brúðkaup Kate og Vilhjálms fór ekki framhjá neinum, þar með talinni Meghan sem hélt úti bloggi á þessum tíma.

Í blogginu skrifaði hún færslu um brúðkaupið og virtist hvorki hrifin af Kate né konungsfjölskyldunni. ,,Litlum stelpum dreymir um að vera prinsessur. Ég, fyrir mitt leyti, langaði að vera She-Ra, Princess of Power,‘‘ skrifaði hún. „Fyrir ykkur sem kannist ekki við teiknimyndatilvísun níunda áratugarins er She-Ra tvíburasystir He-Man og konunglegur uppreisnarmaður með sverð sem er þekkt fyrir styrk sinn.‘‘
Þá sagði hún fullorðnar konur lifa í sömu fantasíu og þær gerðu sem litlar stúlkur. ,,Fullorðnar konur virðast halda þessari bernskufantasíu. Sjáið bara æsinginn og tilstandið í kringum konunglega brúðkaupið og endalausar umræður um Kate prinsessu,“ skrifaði vonsvikin Meghan að lokum.