„Það eru margir nýir og betri siðir sem hafa orðið til í þessum faraldri en ég býst nú við að margir verði eins og beljurnar á vorin. Mér finnst líklegt að það mælist óróapúls í fólkinu í bænum í kvöld,“ sagði Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams í samtali við Morgunblaðið.
Geoffrey er meðeigandi og rekstrarstjóri á Prikinu við Laugaveg og býst hann við góðri stemningu í miðbænum í kvöld.
Skemmtistaðir mega hafa opið fram eftir nóttu þar sem sóttvarnaaðgerðum var aflétt nú á miðnætti og þeir staðir sem eru opnir hvað lengst loka ekki fyrr en um hálf fimm í nótt.
„Það er gott hljóð í fólki hér. Við fengum fínan fyrirvara til undirbúnings og nú eru allar pantanir komnar í hús, vaktir á stöðunum eru vel mannaðar og plötusnúðar eru klárir að vaka fram eftir og spila fyrir gesti, “ sagði Geoffrey en bætti við að það kæmi eflaust til með að taka tíma fyrir starfsfólk að venjast gömlu opnunartímunum sem er töluvert fram yfir miðnætti.