Mánudagur 27. janúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Myndaði fyrsta eldgosið við Keili fyrir tilviljun – Hefur náð öllum gosunum síðan

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Ljósmyndarinn Rebekka Guðgeirsdóttir myndaði fyrir tilviljun fyrsta eldgosið í nýju eldgosahrinunni á Reykjanesinu og hefur síðan myndað öll sjö eldgosin.

Rebekka Guðleifsdóttir

Mannlíf sagði frá því í dag að Rebekka Guðgeirsdóttir ljósmyndari hafi náð að mynda augnablikið sem eldgosið hófst við Sundhnjúkagíga þann 16. mars. Ástæðan fyrir því að Rebekka náði að festa augnablikið á filmu er sú að frá því í febrúar 2021 hóf hún að taka ljósmyndir af Keili heiman frá sér og birti á Instagramreikningi undir nafninu DailyKeilir.

Sjá einnig: Náði upphafi eldgossins á mynd – Sjáðu hið magnaða augnablik

Rebekka útskýrði verkefni sitt í Facebook-færslu rétt áður en sjöunda gosið síðan 2021 hófst á Reykjanesinu. Þar segist hún hafa orðið afar þunglynd á tímabili og fjarlægst ljósmyndun eftir röð áfalla. Til að reyna að ná sér upp úr því ákvað hún að velja sér einfalt ljósmyndaverkefni sem hún gæti unnið í daglega án mikillar fyrirhafnar. Keilir blasti við sjóndeildarhringinn frá heimili hennar og varð því fyrir valinu. Hóf Rebekka því í febrúar 2021 að taka ljósmyndir af Keili, grunlaus um að mánuði síðar myndi fyrsta eldgosið á svæðinu í 800 ár hefjast og það fyrir framan linsur myndavélar hennar. Segir hún í færslunni að ekkert hefði getað undirbúið hana undir það sem koma skyldi en hún náði að mynda upphaf allra eldgosanna og er því um ótrúlega góðar sögulegar heimildir að ræða. Segir hún að fyrstu þrjú gosin hafi ratað fullkomlega inn á rammann en næstu þrjú ekki eins vel en hún haldi þó áfram að mynda Keili nær daglega.

Hér má sjá færslu Rebekku í heild sinni og ótrúlegar ljósmyndir hennar:

„Í tilefni þess að nú fer bráðum að koma sjöunda gos á Reykjanesi, langar mig að deila hérna nokkrum myndum. Fyrri sýnir öll sex gosin sem hingað til hafa átt sér stað síðan 19 Mars, 2021. Hin er samsett af fyrstu þremur gosunum.

Eins og margir vita en langt því frá allir, þá byrjaði ég, í febrúar 2021, að taka myndir af Keili heiman frá mér, og hóf að deila þeim myndum á nýjum IG reikningi undir nafninu DailyKeilir.

Þetta verkefni varð til því ég var búin að vera mjög þunglynd, hafði fjarlægst ljósmyndun eftir röð áfalla, og mig langaði að hafa eitthvað einfalt verkefni fyrir stafni sem ég gæti sinnt daglega án mikillar fyrirhafnar, til að koma sköpunargleðinni vonandi aftur í gang.  Keilir blasti við á sjóndeilarhringnum, og varð fyrir valinu.
Verkefnið hófst tveimur vikum áður en fyrsta öfluga skjálftahrinan byrjaði, gos hafði ekki átt sér stað á þessu svæði í meira en 800 ár, og það var bókstaflega ekkert sem hefði getað búið mig undir þá stórfurðulegu atburðarás sem hefur fylgt í kjölfarið. Stundum finnur maður á sér að það eigi að gera eitthvað, og þá er oft bara best að fylgja innsæinu.
Fyrstu þrjú gosin náðu ennfremur að rata fullkomlega inn í þann sýmetríska ramma (Keilir fyrir miðju) sem ég valdi strax í upphafi, og m.a.s röðuðu sér þannig að ég gat sett saman þessa þrískiptu mynd þannig að öll sjást á sama tíma. Það var eitthvað göldrótt við það.
Seinni þrjú hafa hinsvegar verið hundleiðinleg þrátt fyrir ákveðna fegurð úr fjarlægð, hafa valdið stórskaða og allskonar veseni, og eru líka alls ekkert „inni í rammanum“. Ég hef samt haldið áfram að mynda næstum daglega, enda oft bara svo mikil fegurð í skýjunum (verkefnið var líka upphaflega bara hugsað til að sýna fjölbreytileikan í íslenska veðrinu, svo bættist við fjölbreytileiki í sjálfu landslaginu, enda sást nýr gígur vaxa yfir sjóndeildahringin meðan fyrsta gos var í gangi)
Þegar gos númer tvö byrjaði þá fór ég að fikta við að búa til timelapse myndbönd og síðan þá hefur það verið áherslan, sum þeirra hafið þið séð hér í þessari grúppu.
Datt bara í hug að einhver hefði gaman af svona samanburða myndum.“

Fyrstu sex gosin
Ljósmyndir: Rebekka Guðgeirsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -