Buckingham-höll hefur nú verið krafin svara hvers vegna ekki séu gefar upp frekari upplýsingar um niðurstöðu rannsóknar vegna ásakana um einelti af hertogaynjunni af Sussex.
Höllin hefur staðfest að einkarannsókn á kvörtunum um eineltistilburði Meghan sé nú lokið. Meghan hefur ávallt vísað fullyrðingum um einelti af hennar hálfu á bug. Í rannsókninni var meðal annars farið yfir hvernig starfsmenn hallarinnar hefðu meðhöndlað kvartanir, frekar en að rýna í smáatriði ásakananna sjálfra. Þá vöknuðu ýmsar spurningar hjá erlendum fréttamiðlum eftir að tíðindi bárust af því að starfsmannastefna hefði verið bætt í kjölfar rannsóknarinnar. Þá hefur höllin neitað að birta upplýsingar um breytingarnar eða niðurstöður.
Háttsettur heimildarmaður innan hallarinnar sagði: „Vegna trúnaðar um umræðurnar höfum við ekki miðlað ítarlegum tilmælum. Breytingarnar hafa verið felldar inn í stefnur þannig að allir starfsmenn og allir meðlimir konungsfjölskyldunnar verða meðvitaðir um hverjar stefnurnar og verklagsreglurnar eru.“ Buckingham-höll hóf rannsóknina í mars 2021 eftir að sögur, þess efnis að Meghan hefði rekið tvo aðstoðarmenn á brott og auk þess niðurlægt aðra starfsmenn nokkrum sinnum, fóru á kreik. Lögfræðingar hertogaynjunnar neituðu ásökunum strax frá upphafi, en búist var við að núverandi og fyrrverandi, starfsfólki yrði boðið að segja frá reynslu sinni af því að vinna fyrir Meghan. Samkvæmt heimildum Sky News var aðeins takmarkaður fjöldi starfsfólks tekinn í viðtal vegna málsins. Nú bíða erlendir fjölmiðlar nýrra tíðinda og þess að verða upplýstir um hvort að sögurnar um Meghan hafi verið sannar.