Uppistandarinn Arnór Daði ætlar að hefja reglulegar sýningar á Græna Hattinum á Akureyri.
Nú er uppistandarinn Arnór Daði fluttur norður á Akureyri með konunni sinni og fjögurra ára dóttir á meðan kona hans klárar hjúkrunarfræði í HA, að því er fram kemur í tilkynningu frá grínistanum. „Þau njóta þess að þurfa ekki að sitja í umferð og góðs baklands þar sem Arnór er fæddur og uppalinn í næsta nágrenni, á Hauganesi.“
Samkvæmt tilkynningunni blómstrar allt á Akureyri um þessar mundir, fyrir utan það að þar skortir góðar uppistandssýningar. Arnór ætlar þess vegna að taka málin í sínar eigin hendur og byrja með reglulegar sýningar á Græna Hattinum sem heita „Geggjað Læn-öpp“. Arnór Daði er kynnir kvöldsins og fær með sér þrjá þrælreynda grínista sem ferjaðir verða að sunnan til að skapa alvöru „comedy-klúbb stemningu,“ eins og það er orðað í tilkynningunni en þar kemur einnig fram að Græni Hatturinn sé „svo sannarlega fullkominn staður fyrir þannig fíling.“
Þá kemur aukreitis fram að Grín-þorsti Akureyringa sé „svo svakalegur að fyrirtækin B.Jensen og Hótel Kjarnalundur stukku beint á tækifærið til að sponsa þessi kvöld.“
Fyrsta sýning verður 23. maí og verða grínistarnir sem fram koma af dýrari gerðinni. Bjarni Gautur stígur fyrstur á stokk en þeir sem hafa fylgst með uppistand senu Reykjavíkur þekkja vel til húmors hans. Næstur er hinn margverðlaunaðu sprellari, Mauricio Villavizar og síðast en alls ekki síst, sigurvegari Íslandsmótsins í uppistandi árið 2020, Greipur Hjaltason. Greipur hefur gert garðinn frægan á TikTok upp á síðkastið en hann þykir afar góður uppistandari.
„Ég trúi ekki öðru en fólk eigi eftir að taka vel í þetta hérna. Lista og leikhúsmenning hefur lengi vel verið vinsæl á Akureyri og smá uppistand væri fín og velkomin viðbót,“ segir Arnór Daði í samtali við Mannlíf.