Rithöfundurinn og leikritaskáldið Ólafur Haukur Símonarson skrifar lipra Facebook-færslu þar sem hann talar um þróun dagblaða á Íslandi. Segir hann að í gamla daga hafi fólk haft um fjögur dagblöð að velja úr og nefndi tvö önnur not sem fólk fann fyrir blöðunum.
„Í eina tíð ekki einungis lásu Íslendingar þrjú til fjögur dagblöð dag hvern heldur vöfðu fisksalar þessum dásamlegu fréttamiðlum utan um hið daglega fiskmeti, og síðast en ekki síst skeindu landsmenn sig nær allir á rökföstum leiðurum blaðanna. Sic transit gloria mundi.“
Því næst beinir Ólafur Haukur beittum orðum sínum að Morgunblaðinu:
„Nú er hver að verða síðastur til að lesa íslenskt dagblað prentað á pappír. Mogginn stendur einn eftir og riðar þó til falls. Kvótakóngar og – drottningar ku vera leið orðin á að því greiða hallareksturinn, ekki einu sinni einokun Mbl á stórfréttum af dauðu fólki og jörðuðu nægir til að halda lesendum í krónni. Sjálfur les ég Moggann bara þegar Davíð sjálfur kemur til mín á fimmtudögum og treður blaðinu ásamt tugum síðna af auglýsingarugli inn um bréfarifuna.“
Að lokum segist leikritaskáldið gráta prentmiðlana.