Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Ólöf hefur unnið fyrir sínu: „Ekki eins og ég fái núna allt upp í hendurnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólöf Birna Torfadóttir, leikstjóri og handritshöfundur, er byrjuð í tökum á annari kvikmynd sinni.

Ein af vonarstjörnum íslenska kvikmyndabransans, hún Ólöf Birna Torfadóttir, er nýbyrjuð í tökum á sinni annari kvikmynd. Ólöf sem skrifaði og leikstýrði kvikmyndinni Hvernig á að vera Klassa Drusla, sem kom út árið 2021, hefur mörg járn í eldinum þessa stundina. Nýja mynd hennar heitir Topp 10 Möst og verður fróðlegt að sjá hvort að hún slái í gegn hjá þjóðinni eins og fyrsta mynd hennar gerði.

Í stuttu máli fjallar myndin um Örnu, konu á sextugsaldri, sem er orðin frekar stöðnuð í lífinu og allir dagar virðast eins. Á sama tíma kynnumst við Mjöll sem er þrítugur fangi sem stanslaust virðist koma sér í vandræði,“ sagði Ólöf um söguþráð myndarinnar. „Dag einn ákveður Arna að grípa til róttækra aðgerða, hoppar upp í bíl og leggur af stað í ferðalag þar sem hún hyggst ætla að fylla út óskalista yfir hluti sem hún hefur aldrei gert áður og langar að enda á Austfjörðum þar sem hún hefur aldrei komið þar áður. Á sama tíma fær Mjöll þær fréttir í fangelsinu að barnsfaðir hennar sem býr á Egilsstöðum vill að nýja konan hans ættleiði dóttur þeirra. Mjöll flýr því úr fangelsinu og á bensínstöð á leið út úr bænum finnur hún sér far í bíl Örnu. Þær stöllur verða svo óvanalegt vinapar og saman ferðast þær þvert yfir landið og fylla út topp 10 möst listann,“ en aðalleikarar myndinnar eru Helga Braga Jónsdóttir og Tanja Björk Ómarsdóttir. Með þeim eru svo Björn Ingi Hilmarsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Orri Huginn Ágústsson og Ólafía Hrönn Jónsdóttir.

Ólöf Birna Torfadóttir – Mynd: Gunnlöð

En hvað er við þessa sögu sem heillar Ólöfu svo mikið?

„Það sem heillar mig mest er sagan, hversu margþátta hún er, snertir á ýmsum málefnum sem kannski er ekki oft talað sérstaklega mikið um, sem eru samt málefni sem flestir tengja við á einn eða annan hátt. Mér finnst heillandi hvað karakterarnir eru mannlegir, hversu auðvelt er að tengja við þá. Þrátt fyrir óhefðbundnar aðstæður þá meikar þeirra vinátta svo mikið sens. Ég elska söguna þeirra á milli og tenginguna sem þær mynda og hvað þær verða fyrir hvor aðra.“

Ólöf sem er að gera sína aðra kvikmynd í fullri lengd segir mikinn mun vera á að gera stuttmynd og kvikmynd í fullri lengd en hún hafi lært mikið við gerð fyrstu myndarinnar. „Það er heilmargt sem maður lærir á að vinna svona stórt verkefni. Kannski einna helst það sem ég tek út úr þeirri reynslu og reyni að nýta í næstu verk er að gleyma sér ekki í öllu umstanginu,” segir leikstjórinn um málið. „Að vera á staðnum líka og njóta. Það er ótrúlega gaman að búa til bíó og það má alveg njóta þess og hafa gaman af, ég vil geta gert meira af því, farið frá „settinu“ með góðar minningar og hlýju í hjarta að þarna hafi orðið dásamleg fæðing á því sem við sjáum svo í bíó seinna.“

- Auglýsing -
Tanja Björk Ómarsdóttir leikur aðalhlutverk á móti Helgu Brögu

„Að hafa gert Klassa Druslu vissulega opnaði einhverjar dyr,“ sagði Ólöf um hvort að líf hennar hafi breyst mikið eftir að Hvernig á að vera Klassa Drusla kom út. “Þá hafði maður sannað að maður kynni og gæti gert bíómynd sem varð alveg frekar vel sótt, sérstaklega miðað við Covid aðstæður og takmarkanir á þeim tíma sem hún var í bíó. Á sama tíma er ég frekar ný í þessu hlutverki í kvikmyndaiðnaðinum, það er ekki eins og ég fái núna allt upp í hendurnar eins og mér hentar, langt því frá. Maður er alltaf að sanna sig og bæta. Topp 10 Möst er gríðarlega stórt tækifæri fyrir mig og aðra í „crewinu“ til að sýna okkur og sanna enn og aftur hvers megn maður er og að hér sé ég komin til að vera.“

En hver er munurinn á Topp 10 Möst og Klassa Druslu? „Topp 10 Möst er töluvert stærri framleiðsla en Klassa Drusla var. Topp 10 er styrkt af Kvikmyndasjóði, MyrkvaMyndir og KISI production eru að framleiða myndina saman. Á meðan Klassa Drusla var alveg „low low budget“ mynd og hlutirnir unnir eftir því. Til dæmis tökustíll, í Klassa Druslu var lítið rými fyrir tæki og tól svo hún var mest öll tekin „handheld“. Klassa Drusla var ótrúlega skemmtilegt verkefni, frekar súr ýktur húmor og frábær fyrir það sem hún er. Topp 10 Möst er vissulega gamanmynd, aðeins jarðbundnari og mér persónulega finnst sagan sterkari og karakterar þroskaðari, en það er líka bara af því maður er alltaf að bæta sig og verða betri og vonandi verður það alltaf þannig að næsta verkefni verði betra en það fyrra.“

Ólöf er fyrrverandi nemandi Kvikmyndaskóla Íslands en nemendur skólans hafa undanfarin ár verið að sækja í sig veðrið og verið meira og meira í sýnilegri í kvikmyndabransanum.

- Auglýsing -

„Mér finnst frábært að fleiri og fleiri úr Kvikmyndaskólanum eru að vinna á „settum“. Mín upplifun á skólanum var geggjuð, ég kom þarna inn eins og svampur og saug í mig allar upplýsingar frá fólki sem var heitt inn í bransanum á þeim tíma. Það er það sem mér finnst best við Kvikmyndaskólann er að leiðbeinendur eru fólk sem er akkúrat í dag að vinna í sjónvarpi eða bíó, kennslan er alltaf fersk og í takt við nútímann. Ég hef verið það heppin líka að fá að kenna handrit fyrir nemendur á framleiðsludeild í þrjár annir núna. Ég heyri mismunandi sögur af orðspori frá skólanum en fyrir mér er þetta „super“ einfalt: Ef þú vilt læra og í alvöru gera þetta að ferli þá mun þessi skóli nýtast þér heilan helling. Ef þú ert þarna af einhverjum öðrum ástæðum þá færðu ekkert út úr því.“

„Ég er í handritsteymi með þremur öðrum handritshöfundum í þáttaröð sem Glassriver er að framleiða. Það verkefni er áætlað í sjónvarp fyrripart næsta árs,” sagði Ólöf um hvað væri svo næst á dagskrá þegar tökum lýkur. “Svo er ég og Hrafnkell Stefánsson að vinna saman að mjög svo spennandi þáttum sem heita Eiginkonur Íslands, en það verk hefur þegar hlotið fyrsta styrk handrits frá Kvikmyndasjóði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -