Kvartað var undan klæðaburði Jóns Gnarr á Alþingi í gær.
Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, skrifaði Facebook-færslu í gærkvöldi þar sem hann segir frá því að þingmaður hafi kvartað í gær yfir klæðaburði Jóns á þinginu en Jón dirfðist að mæta í gallabuxum.
„Síðan ég hóf störf á Alþingi hef reynt að tileinka mér snyrtimennsku í klæðaburði. Ég ber mikla virðingu fyrir hefðum og reyni að klæða mig eftir tilefnum og haga mér vel en mér leiðist afskaplega snobb og tilgerð. Ég hef spurst fyrir um klæðareglur Alþingis en þær eru víst engar nema “snyrtilegur klæðnaður” og svo er ætlast til þess að karlmenn séu í jakka. Ég hef fylgt þessu og gott betur og verið í jakkafötum og með bindi.“ Þannig hefst færslan en Jón segir síðan frá því að hann hafi brugðið út af vananum í gær og mætt í gallabuxum. Hann var ekki eini þingmaðurinn í gallabuxum en auðvitað þurfti einhver ónefndur þingmaður að kvarta undan gallabuxum Jóns.
„Í dag gerði ég breytingu á og kom í gallabuxum. Manneskja reyndi að stöðva mig með þeim orðum að ég mætti ekki ganga í þingsal í gallabuxum. Mér brá en í stað þess að hlaupa heim gekk ég rösklega til sætis og settist. Eftir að hafa setið þarna góða stund fór ég að taka eftir öðrum þingmönnum sem voru í gallabuxum. Mér létti mikið. En þegar leið á fundinn fékk ég skilaboð frá þingflokksformanni að ónefndur þingmaður hefði kvartað yfir því að ég væri í gallabuxum.“
Að lokum geri Jón gys að þessu öllu og stingur upp á að hann mæti einn daginn í Obi Wan Kenobi búningnum sínum á Alþingi.
„Svona geta nú umræðurnar á Alþingi verið gáfulegar og gagnlegar fyrir land og þjóð.
Kannski ég mæti einn daginn í Obi Wan Kenobi búningnum mínum ? Hann er mjög snyrtilegur og líka töff og er þar að auki Íslenskt handverk.
Ég legg ekki meira á ykkur en með fylgir viðtal við Birgi Ármannsson og mynd sem Jóga tók af mér áðan. Grein sem ég skrifaði í dag um það neyðarástand sem er viðvarandi í málefnum barna á Íslandi var skrifuð í þessum buxum.
Góða nótt.“