Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Össur mærir Björn Bjarnason: „Gáfaðir menn eru oft djúpir húmoristar í tveggja manna tali“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Össur Skarphéðinsson sendir afmælisbarni gærdagsins kveðju sína á Facebook í morgun en það er enginn annar en Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins og mótherji Össurar á þingi til margra ára.

Líffræðingurinn og fyrrum ráðherrann Össur Skarphéðinsson skrifar skemmtilega færslu í morgun sem hann kallar „Morgunkveðja til Engeyings“ en tilefnið er áttræðisafmæli Björns Bjarnasonar.

Færslan hefst á eftirfarandi orðum:

„Morgunkveðja til Engeyings

Björn Bjarnason, vitrasti maður Engeyjarættarinnar, varð áttræður í gær. Við háðum marga hildi á Alþingi. Hann var ófyrirleitinn, orðhvass, rökfastur, og í persónulegri viðkynningu miklu skemmtilegri en flestir þekkja. Gáfaðir menn eru oft djúpir húmoristar í tveggja manna tali. Það á Björn sameiginlegt með „his eternal foe“, Ólafi Ragnari Grímssyni.

Best var samstarf okkar í Þingvallanefnd um 12 ára skeið, þar sem við stóðum saman að margvíslegri uppbyggingu, og gegn áformum Framsóknar um heimskulegar byggingar innan þjóðgarðs. Í miðjum slagnum um fjölmiðlalögin 2004 orguðum við hvor á annan í þinginu um daga en unnum saman um kvöld við að undirbúa að koma Þingvöllum á heimsminjaskrá UNESCO. Það tókst á mettíma og ekki síst að þakka elju hans.“

Össur er síður en svo hættur að mæra Björn í færslu sinni:

- Auglýsing -

„Birni verð ég ævarandi þakklátur fyrir góðan skilning á málefnum stórurriðans, sem á okkar dögum var að deyja út í Þingvallavatni. Drengileg liðveisla hans í verndaraðgerðum fyrir urriðann skiptu miklu máli um afdrif hans á úrslitastundu í sögu stofnsins. Slíkir hlutir skipta máli, a.m.k. fyrir ræfil minn.“

Að lokum endurbirtir Össur bloggfærslu Björns sem fjallar um Össur sjálfan og segir að það muni gleðja afmælisbarnið:

„Það gleður mig líka hversu náið Björn fylgist með afskiptum mínum – sem engin eru raunar í dag – og útleggingum á pólitík. Stundum hefur það orðið honum að yrkisefni, og í tilefni af áttræðisafmælinu endurbirti ég hér nýlegan pistil af síðunni bjorn.is þar sem fjallað er um ræfil minn. Ég veit það gleður afmælisbarnið, og þarmeð mig.
Birni og hans góðu konu, Rut Ingólfsdóttur óska ég til hamingju með gærdaginn og megi þau lengi lifa góða daga!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -