„Þetta nafn minnir mann sannarlega á Framsóknarflokkinn,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, þegar hún kom að Grænavatni á Núpshlíðarhálsi um liðna helgi.
Lilja var heiðursgestur í ferð með Fyrsta skrefinu 2023, gönguhópi Ferðafélags Íslands, um þetta einstaka svæði vatna og háhita. Genginn var átta kílómetra hringur með þriggja vatna sýn. Fyrst var komið að Spákonuvatni í svartaþoku. Ekki eru til heimildir um tilurð þess nafns. Getgátur eru uppi um að klettamynd ofan við vatnið minni á spákonu og þess vegna sé nafnið tilkomið. Gengið var yfir háls og þá blasti við Grænavatn. Nafnið skýrir sig sjálft. Vatnið er að losna úr klakaböndum og augljóst að það styttist í vorið. Lilja hafði á orði í léttum dúr að grænt væri fallegasti liturinn. Hún var, eins og aðrir göngumenn, hugfangin af fegurðinni við vatnið. Hópurinn áði við vatnið og ráðherrann flutti stutt ávarp um útivist og heilbrigði.
Eftir kaffistoppið við Grænavatn var haldið upp á hálsinn. Þegar þangað kom braust sólin fram og bægði þokunni frá. Sólskini baðað Djúpavatn blasti við í allri sinni fegurð. Gengið var með brúnum þar til komið var að Sogunum, þeim undurfögru. Sogin minna um margt á hverasvæðið við Landmannalaugar. Litbrigðin eru engu lík. Þar er líka eina vatnsfallið á Suðurnesjum, Sogslækur, sem ekki lætur mikið yfir sér.
Göngunni lauk þar sem hún hófst. Fólk var á einu máli um að þetta svæði væri fullkomlega þess virði að heimsækja aftur.
„Hingað mun ég koma aftur. Það er ótrúlega gefandi að upplifa íslenska náttúru með þessum hætti,“ segir Lilja Alfreðsdóttir.