Reykjavíkurdætur þykja sigurstranglegastar af þeim atriðum sem keppa í Söngvakeppni sjónvarpsins í kvöld, ef marka má stuðla veðbanka.
Á síðunni Eurovisionworld má sjá stuðla fyrir þau fimm atriði sem keppa um hylli landsmanna í kvöld, samantekna af helstu veðbönkum þar sem fólki býðst að veðja á hina ýmsu hluti. Eins og margir þekkja eru það slíkir veðbankar sem oft spá fyrir um það með nokkurri nákvæmni hvaða land beri sigur úr býtum í aðalkeppni Eurovision – þó ekki sé það algilt.
Á Eurovisionworld má sjá að Reykjavíkurdætur eru efstar hjá veðbönkunum með 54 prósent vinningslíkur. Á eftir þeim í röðinni er Katla, með 21 prósent vinningslíkur. Það er Stefán Óli sem veðbankar telja líklegastan í þriðja sætið, með 10 prósent vinningslíkur. Á eftir honum koma systurnar Sigga, Beta og Elín með 9 prósent vinningslíkur og svo systkinin söngelsku í Amarosis með 6 prósent líkur.
Skoðanakönnun líka með dæturnar efstar
Við hlið listans frá veðbönkunum má sjá skoðanakönnun þar sem spurt er: „Hver ætti að sigra Söngvakeppnina 2022?“
Niðurstöðurnar úr könnuninni, eins og atkvæðin standa núna, eru á þá leið að flestum þykir Reykjavíkurdætur bestu fulltrúar þjóðarinnar til þess að leggja land undir fót til Ítalíu.
Þannig telja 36 prósent kjósenda þær eiga sigurinn skilið. Líkt og hjá veðbönkunum er það Katla sem kemur næst á eftir, þó mun mjórra sé á munum í könnuninni heldur en hjá veðbönkum. Hún fær 32 prósent atkvæða. Sigga, Beta og Elín eru í þriðja sæti hjá kjósendum síðunnar, með 10 prósent atkvæða. Stefán Óli fær síðan 6 prósent og Amarosis 4 prósent.