Blóðmeinafræðingur sem rokkar.
Það eru ekki margar íslenskar hljómsveitir með lækni innanborðs en hljómsveitin Dr. Blood Group inniheldur tvo, þá Pál Torfa Önundarson blómeinafræðing og Þórólf Guðnason, fyrrverandi sóttvarnalækni Íslands. Hljómsveitin er þó skipuð fleiri en þeim tveimur og eru meðlimir alls átta talsins.
„Við vorum alltaf fimm en það er svo mikil eftirspurn að við erum orðnir átta, sem þýðir að við komust eiginlega ekki fyrir á sviði,“ sagði Páll hlægjandi í samtali við Mannlíf en ásamt þeim Þórólfi eru Ársæll Másson, Einar Sigurmundsson, Jón Baldur Þorbjörnsson, Kjartan Jóhannesson, Kristján Sigurmundsson og Ólafur Óskar Axelsson í Dr. Blood Group. Hljómsveitin hefur starfað með einum eða öðrum hætti síðan árið 1975. En hvað kemur þetta nafn?
„Gárungarnir hafa fundið upp á að kalla mig Dr. Blood af því að þeim fannst svo fyndið að blóðmeinafræðingur væri að spila á gítar í hljómsveit.“
Laugardaginn 18. nóvember stígur sveitin á stokk í Vaginum á Flateyri og á Páll ættir að rekja til bæjarins en langaafi hans stofnaði bæinn. Margir tónlistarunnendur þekkja Vagninn vel og aðeins færustu tónlistarmenn Íslands fá að halda tónleika þar og hefur það verið stefnan lengi hjá Páli að spila þar. „Svo langaði okkur að spila í Vaginum, safna því í ferilskrána, að hafa spilað í Vaginum á Flateyri,“ sagði Páll þegar hann var spurður af hverju Vagninn varð fyrir valinu.
Tónleikarnir eru minningartónleikar um tvo látna vini sveitarinnar þá Guðmund Thoroddsen listmálara og Jón Sigurpálsson, myndlistarmann og fyrrverandi safnastjóra Byggðasafns Vestfjarða. Báðir léku í hljómsveitinni Diabolus in Musica á árum áður með Dr. Blood og fleirum.
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um tónleikana hér.