Salka Sól Eyfeld prjónaði lopapeysu í palestínsku fánalitunum handa Bashar Murad, þátttakanda Söngvakeppninnar í ár.
Söngkonan ástsæla, Salka Sól Eyfeld er margt til lista lagt. Ekki er hún einungis frábær söngkona og flott útvarpskona, heldur er hún afar flink með prjónana. Í nýrri Instagram-færslu birtir hún ljósmyndir af Bashar Murad, palestínska söngvaranum sem tekur þátt í Söngvakeppni RÚV í ár, klæddan í gullfallega lopapeysu sem Salka Sól prjónaði á hann. Lopapeysan er í fánalitum Palestínu. Þá birti hún einnig ljósmynd af sér með Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, þáverandi utanríkisráðherra, með lopapeysu sem söngkonan prjónaði í úkraínsku fánalitunum, sem Þórdís færði svo forseta Úkraínu að gjöf.
Með færslunni skrifar hún stuðningsyfirlýsingu með Bashar og fordæmir þjóðarmorðið á Gaza. Lesa má færslu hennar hér í heild:
„Ég prjónaði þessa lopapeysu í Palestínsku fánalitunum fyrir Bashar Murad sem tekur þátt í Söngvakeppninni í ár.
Ferðalagið hans hingað og frásögn hans af því hvernig mamma hans og pabbi börðust fyrir því að fá Palestínu viðurkennda hjá EBU sýnir okkur hvernig Palestínumenn eru útilokaðir í svo mörgu tilliti.
Ég styð Bashar og veit að hann er verðugur fulltrúi okkar með hjartað á réttum stað og ötull baráttumaður fyrir friði og mannréttindum.
Ég prjónaði þessa sömu peysu sem þáverandi utanríkisráðherra færði Zelensky að gjöf til að sýna samstöðu með Úkraínu.
Núna fordæmi ég þjóðarmorð og krefst þess að þeir Palestínumenn á Gaza sem fengið hafa loforð um fjölskyldusameiningu á Íslandi komist hingað heim strax. Þrjár íslenskar konur hafa sýnt stjórnvöldum að það er alls enginn ómöguleiki.
Aukabónus: @basharmuradofficial á afmæli í dag
Aukaaukabónus: Ragga Gísla tók myndirnar“