Sunnudagur 12. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Samsærisþátturinn Álhatturinn mættur á svæðið: „Ég get alveg verið vel geðveikur varðandi sumt.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í gær hóf göngu sína hlaðvarpsþátturinn Álhatturinn í umsjón þeirra Guðjóns Heiðars, Hauks Ísbjarnar og Ómars Þórs.

Merki þáttarins

Mannlíf settist niður með tríóinu og ræddi við þá um nýjasta þáttinn í flóru hlaðvarpanna.

Þú og félagar þínir eruð að byrja með glænýjan hlaðvarpsþátt, um hvað er hann og hvað heitið þið allir?

„Það er hlaðvarpsþátturinn “Álhatturinn” þar sem fjallað verður um samsæriskenningar á laufléttum nótum. Ég heiti Guðjón Heiðar. Ég heiti Haukur Ísbjörn! Og ég heiti Ómar Þór!“

Hvernig er þátturinn byggður upp?

Ómar: „Við tökum fyrir eina kenningu í hverjum þætti. Í upphafi ferlisins setjum við upp fullyrðingu og gefum svo einkunn frá 1-10 byggt á því hversu sammála við erum henni. Svo í lok þáttarins þá gefum við aftur einkunn og sjáum þá hversu mikið afstaða okkar hefur breyst.“

- Auglýsing -

Guðjón: „Þá getum við séð svona, hver er þrjóskastur, hvaða kenningar okkur finnst sennilegastar, hver er mesti álhatturinn og þar fram eftir götunum.“

Samsæriskenningar… geturðu nefnt dæmi? Erum við að tala um eðlufólk og nasista á tunglinu og þess háttar?

Haukur: „Nasistar á tunglinu? Þetta er nú meira bullið í þér. Það er eðlufólkið sem býr á tunglinu! Þær útrýmdu nasistunum eftir grimmilega tunglstyrjöld seint á sjöunda áratugnum. Þetta ættir þú að vita!“

- Auglýsing -

Guðjón: „Haha, já, eða sko, við værum alveg vísir til að fjalla um kenninguna um eðlufólkið til dæmis. Þetta þarf ekki endilega að vera eitthvað sem við trúum á sjálfir en bara eitthvað sem gæti verið áhugavert að skoða.“

Ómar: „Við munum bara fara yfir allar þessar helstu kenningar, svona á einhverjum tímapunkti allavega. Ellefti september, JFK, Illuminati, geimverur, global warming, covid og svo framvegis. En svo munum við líka taka fyrir aðeins minna þekktari kenningar og rannsaka þær. Svo þetta verður bara ákveðið svona jafnóðum eftir því hvað við erum spenntastir fyrir.“

Og hver er markhópurinn?

Haukur Ísbjörn: „Markmiðið er í raun að allir geti haft gaman af að hlusta á þetta. Þetta er ekki svona samsærishlaðvarp sem er í einhverju stríði að reyna að sannfæra þig um eitthvað. Þarna erum við bara að rökræða hlutina og sjá hvaða kenningar okkur finnst meika mest sens, en svo höfum við líka mjög gaman að kenningum sem meika lítið sens.“

Guðjón: „Algjörlega, markhópurinn er í raun bara hver sem er. Við erum svona dottnir misdjúpt ofan í kanínuholuna og þættirnir munu bera þess merki. Ég er sennilega klikkaðastur en það er samt aldrei að vita nema Haukur og Ómar komi á óvart hvað það varðar.“

Ómar (hlær): „Ég get alveg verið vel geðveikur varðandi sumt.“

Haukur: „Jájá ég líka. Það fer alveg eftir umræðuefninu. Svo fer það líka eftir því hvernig þú spyrð auðvitað.“

Hvað verða þetta margir þættir á mánuði? Er þetta áskriftarþættir?

Ómar: „Við munum gefa út í annarri hverri viku, nema þáttur tvö kemur í næstu viku! Engin áskriftargjöld! Núll krónur á borðið, svo núll krónur á mánuði í eitt ár.“

Guðjón: „Já svo bætast auðvitað við það vextir upp á núll kr. fyrir hvern þátt.“

Fyrsti þátturinn, um hvað er hann?

Guðjón: „Í þessum fyrsta þætti fjöllum við bara um samsæriskenningar almennt og svona okkar reynslu af þeim. Kynnum líka konseptið aðeins til sögunnar og svona okkur sjálfa.“

Haukur: „Við förum aðeins yfir það hvernig við komumst fyrst í tæri við samsæriskenningar og hvenær við fórum svona að taka að minnsta kosti einhverjar þeirra aðeins alvarlegar. Það kom til dæmis í ljós í þessum þætti sem við höfðum ekki áttað okkur á að Guðjón hafði smá þátt í þeirri sögu hjá okkur báðum, en hann lét okkur báða hafa dvd disk sem fjallaði um árásirnar 11.september. Sú mynd átti svona eftir að hafa spila ákveðna rullu í ferlinu hjá okkur báðum.“

Ómar: „Já þarna erum við svona að kynna þetta allt saman og fara svona yfir víðan völl í þessu samhengi. Þess vegna líka komum við með næsta þátt strax eftir viku, demba okkur í kenningu, svo verða þetta tvær vikur sem líði á milli eftir það.“

Takk kærlega fyrir komuna strákar og gangi ykkur vel! Eitthvað sem þið viljið bæta við?

Guðjón: „Já bara endilega finnið okkur á Facebook, þar er kominn mjög líflegur umræðuhópur með rúmlega 500 manns. Þar er hægt að taka þátt í könnunum og umræðum um umfjöllunarefni þáttanna ásamt því sem þú getur komið með uppástungur og bent okkur á áhugaverðar kenningar sem er svo aldrei að vita nema rati í þáttinn. Svo erum við á Twitter, TikTok og Instagram. Þátturinn er kominn á Spotify núna en mun svo lenda hjá Apple og YouTube þegar við erum búnir að finna út úr nokkrum tæknilegum atriðum þar!“

Ómar: „Akkurat, þetta verður á öllum helstu streymisveitum og samfélagsmiðlum! Við vonum bara að þið munið hafa gaman af að hlusta og fylgjast með Álhattinum!“

Hér er hægt að hlusta á Álhattinn:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -