Í Fagraþingi í Kópavogi er fallegt útsýni yfir Elliðavatn og fjallagarða. Þar er stórglæsilegt einbýlishús komið á sölu og er sjón svo sannarlega sögu ríkari. Fasteignasalan Lind er með eignina á skrá en húsið er 329,3 fermetrar að stærð og stendur á 954 fermetra lóð.

Tvennar svalir eru á húsinu, sem setur á það glæsilegan svip. Annars vegar u.þ.b. 26 fermetra yfirbyggðar svalir (ekki inn í fermetratölu eignar) til suðausturs og hins vegar svalir úr hjónaherbergi til norðausturs.

Eins og sést á myndum er mikil lofthæð víða í húsinu. Lofthæð í anddyri og neðri stofu er rétt tæplega 5 og hálfur meter og 4,2 metrar í eldhúsi, efri stofu, hjónasvítu og aðal baðherbergi.

Arkitekt hússins er Kristiaan Pringels frá arkitektastofu í Gent, Belgíu og sá Edda Ríkharðsdóttir innanhúsarkitekt um alla hönnun á húsinu. Innréttingar eru sérsmíðaðar af Guðmundi í Við og Við og vönduð blöndunartæki frá Vola. Því er það ljóst að vandað hefur verið til verka þegar kemur að hverju einasta smáatriði og útkoman – Stórglæsileg!

Áhugasamir geta nálgast fleiri myndir og frekari upplýsingar á vef fasteignasölunnar.