„Spurning dagsins. Ef þú værir píkuprump, hvaða píkuprump værir þú,“ spyr tónlistarmaðurinn góðkunni Daniel Oliver í færslu á Facebook. „Ég væri klárlega físukvak.“
Vísar Daníel Oliver þar skemmtilega færslu sem Bragi Valdimar Skúlason tónlistarmaður og textahöfundur með meiru deildu á Twitter-síðu sinni í vikunni. Þar birtir hann ákall sem finna má í pistli eftir Veru Sófusdóttir í nýjasta tölublaði Vikunnar og hljóðar svo: „Getur ekki Bragi Valdimar Skúlason, Kappmálsmaður og Baggalútur, fundið eitthvað fallegt orð í stað píkuprumpsins?“ Bragi skorast að sjálfsögðu ekki undan því og birtir eftirfarandi á twitter:
Klofsöngur & skapasköll
skuðahvinur, láfuköll.
Tussupískur, barmabrak
budduljóð & físukvak.
Pík–atsjú & rifuraul
rjáfurgola, pjásubaul.
Kússugjálfur, klobbaflaut,
kórpjása & tónaskaut.
Neðribæjardirrindí
dalagola, pjallerí.
En þó það máski kveiki krump
— kallast þetta píkuprump.
Óhætt er að segja að þetta hressilega uppátæki Vikunnar hafi vakið mikla athygli og sömuleiðis svar Braga sem hefur farið eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum. Og ekki stendur á svörunum hjá vinum og fylgjendum Daniels á Facebook þar sem fólk keppist nú um að svara.