Nýverið var tilkynnt um að hin stórkostlega hljómsveit The Smashing Pumpkins myndi spila á Íslandi þann 26. ágúst og fara tónleikarnir fram í Laugardalshöll.
Hljómsveitin hefur selt tugi milljóna platna í gegnum árin og unnið til tvennra Grammy verðlauna og því ljóst að margir Íslendingar eru spenntir fyrir því að sjá þá félaga spila helstu smellina. Þó hefur verðlag á tónleikunum vakið athygli margra og þá sérstaklega á meintum „VIP“ pökkum en í þeim er ekki innifalin miði á tónleikanna. Þá kosta ódýrustu miðarnir 19.990 krónur
Þá kostar miði í dýrustu sæti 49.990 kr. og gæti þá heildarverð ofuraðdáanda hljómsveitarinnar endað í rúmum 100 þúsund krónum. Telja sumir að þarna sé verið að svína illa á fólki en ekki kemur fram í auglýsingum frá Senu Live, sem flytur sveitina inn til landsins, hvað er í „merch“ pakkanum og þá er tekið sérstaklega fram að allt tengt „VIP“ pökkunum sé háð breytingum.
Mannlíf ræddi við mann sem hefur mikla reynslu í að flytja inn hljómsveitir en vildi ekki koma fram undir nafni. „Þetta er drasl. Það getur verið að þetta „merch“ sé frábært en fólk hefur enga hugmynd um það fyrir fram. Auðvitað er fólk ekkert tilneytt til að kaupa þetta en mér þykja þetta ekki sérstaklega smekklegir viðskiptahættir.“