Sönghópurinn Voces Thules flytur aftansöng, Vesper I úr Þorlákstíðum, klukkan 17-18 í dag, Þorláksmessu, í Kristskirkju konungs í Landakoti.
„Enginn aðgangseyrir er á aftansönginn og gestir og gangandi eru velkomin að njóta hins forna kyrrðarsöngs klaustranna í umvefjandi hljómburði Kristskirkju í Landakoti,“ segir Sverrir Guðjónsson, einn söngvara Voces Thules.
Að sögn Sverris er tíðasöngur í gregoríönskum stíl nokkurs konar kyrrðarsöngur, „þar sem flæði tónlistarinnar og textanna fleytir þátttakandanum áfram líkt og hann sigli áreynslulaust á öldufaldi, en með skýra stefnu.“ Flutningur þessarar tónlistar er innilegt tilbeiðslu-og hugleiðsluform, sem kristin kirkja hefur iðkað frá ómunatíð.
Tónlistarhandrit Þorlákstíða, AM 241 a II fol. er frá sirka 1400, flutt heim frá Kaupmannahöfn 1996, og nú vel varðveitt í EDDU, húsi handritanna. Á Listahátíð í Reykjavík 1998, á Hvítasunnu, fluttu Voces Thules Þorlákstíðir í heild sinni á rúmum sólarhring að fornum klaustursið, í tilefni af 800 ára dýrlingshátíð Þorláks biskups Þórhallssonar. Í kjölfar flutningsins hófst hljóðritun Þorlákstíða í áföngum, sem var gefin út á listbók, hannaðri af Brynju Baldursdóttur, sem innihélt þrjá geisladiska og einn textadisk, ásamt greinum á nokkrum tungumálum. Hagnýt uppskrift Þorlákstíða, sem Eggert Pálsson hefur unnið upp úr handritinu, mun vonandi verða aðgengileg þegar fram líða stundir, að sögn Sverris.
Þorlákur biskup Þórhallsson lést 23.desember 1193. Þann 20.júlí 1198 voru bein hans tekin upp, áheit á hann heimiluð af Alþingi 1199 og messudagur hans, 20.júlí eða Þorláksmessa á sumar, lögtekinn 1237. Jóhannes Páll II páfi útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands með tilskipun, 14.janúar 1984.
En var Sverrir ekki hættur að syngja?
„Nú syng ég aðeins einu sinni á ári aftansöng úr Þorlákstíðum, ásamt sönghópnum Voces Thules, með friðarbæn í brjósti, undir verndarvæng dýrlings Íslendinga,“ svaraði Sverrir í samtali við Mannlíf. Bætti hann við: „Þetta er mjög nærandi“.
Voces Thules: Eggert Pálsson, Einar Jóhannesson, Eiríkur Hreinn Helgason, Eyjólfur Eyjólfsson, Sigurður Halldórsson, Sverrir Guðjónsson.
Sverrir vildi að lokum senda sérstakar þakkir til Séra Jakobs Rolland.