„Ég ætlaði sko að vera gift með barn fyrir tuttugu og fimm. Ég er orðin 31 og ég er alls ekki með barn og ég er heldur ekki gift, það er bara svona,“ segir áhrifavaldurinn Tanja Ýr í nýjum podcast þætti sínum. Í þættinum talar Tanja um hvernig líf hennar hefur þróast og segist hún hafa lært það með aldrinum að hætta að spá í því hvað öðrum finnst. „Ég er meira hamingjusöm að vera bara á staðnum sem ég er á í dag.“
„Eftir þrítugt fór ég að “reflecta“ á lífið og pæla svona það sem ég sé eftir að hafa ekki gert og kannski mögulega líka hvað ég sé eftir að hafa ekki gert betur,“ segir Tanja en í dag rekur hún fyrirtækið Glamista hair. Hún segist þá óhrædd við að gera mistök. „Mér finnst gaman að deila mistökum þannig að aðrir sjái og geti lært af því.“
„Ég er hætt að afsaka fyrir hvernig ég er. Mig langar að taka pláss og mig langar bara að vera eins og ég er en þetta er eitthvað sem ég fann fyrir svona því eldri sem ég verð.“ Í dag segist hún gera hlutina að fullum krafti til að ná sem bestum árangri. Það sé einnig eitthvað sem hún hafi lært með tímanum en Tanja er búsett í London með kærasta sínum, Ryan. Hún metur það svo að það sé mun ódýrara að búa á Íslandi en tækifærin í London séu bæði stærri og fleiri. „Eruði ekki að grilla í mér hvað það er dýrt að búa hérna,“ sagði hún og bætti við að það lægi við að það kostaði að anda í borginni. Lífið segir hún vera óútreiknanlegt en stefnir parið á að kaupa sér hús í Bretlandi. Þar til þau finna rétta húsið segist áhrifavaldurinn ætla að vera oftar á Íslandi en vonast þó til þess að finna drauma húsið sem fyrst.