Hjálmar Árnason, fyrrverandi þingmaður og rektor Keilis, er ekki aðgerðalaus eftir að hann fór á eftirlaun. Hann skrifaði barnabók um veiruna illræmdu sem tröllríður samfélaginu. Bókin er skrifuð í léttum dúr með mögnuðum teikningum eftir Fanney Sizemore.
Hjálmar var um árabil alþingismaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi. Þá var hann skólameistari háskólans Keilis á Suðurnesjum. Hann er þekktur útivistarmaður og er gjarnan á þeytingi um fjöll og firnindi. Eftir að hann fór á eftirlaun ákvað hann að skrifa barnabók og Ég er Kórónaveiran varð til. Útgefandinn, Ugla, er að huga að útgáfu bókarinnar erlendis. Víst er að áhugi er á efninu en veiran herjar á alla heimsbyggðina.