Þorbjörg Hafsteinsdóttir, næringarþerapisti, lífsmarkþjálfi, rithöfundur og yoga-kennari með meiru, er orðin amma.
„Vinkonur mínar eru margar orðnar ömmur fyrir lifandis löngu og hafa allar dásamað það og nú skil ég það. Það er dásamlegt að vera amma,“ segir Þorbjörg þegar hún er spurð hvernig henni líði í ömmuhlutverkinu, en í nýjustu færslu sinni á Facebook deilir hún mynd af dóttur sinni Ástu Leu og fyrsta ömmubarninu, Sölku Liv, í tilefni af afmæli Ástu Leu.
Salka Liv kom í heiminn þann 10. maí, eða í miðjum kórónuveirufaraldri, eins og Þorbjörg orðar það. Hún segist aldrei gleyma tilfinningunni sem fylgdi því að líta ömmustúlkuna sína augum í fyrsta sinn, þar sem hún lá við brjóst móður sinnar. „Þetta hitti mig beint í hjartastað,“ rifjar hún upp. „Það var hreinlega eins og tíminn stæði í stað og allt yrði hljótt og þessi mynd af þeim mæðgum saman hefur ekki horfið úr huga mér síðan.“
Lítið kraftaverk
Sjálf á Þorbjörg þrjár dætur, Ástu Leu, 37 ára, Idu Björk, 35 ára, og Telmu Píl, 25 ára. „Þær eru allar á kafi í sínu lífi, að mennta sig og hasla sér völl í starfi. Barneignir hafa þar af leiðandi ekki verið í forgangi öfugt við það sem var hjá mér, ég átti frumburðinn, Ástu Leu, þegar ég var 23 ára og Idu Björk tveimur árum síðar. En það getur verið vandkvæðum bundið að eignast barn seinna á lífsleiðinni og ekki sjálfgefið að það takist í fyrstu atrennu að eignast barn þegar maður er orðinn eldri en 35 ára,“ bendir Þorbjörg á og bætir við að því hafi Salka litla verið svolítið lengi á leiðinni.
„Vinkonur mínar eru margar orðnar ömmur fyrir lifandis löngu og hafa allar dásamað það og nú skil ég það. Það er dásamlegt að vera amma.“
„Foreldrar hennar þurftu að hafa svolítið fyrir því að koma henni í heiminn,“ segir hún og brosir út í annað. „En það tókst og hún leit dagsins ljós í Kaupmannahöfn 10. maí, meðan kórónuveirufaraldurinn geisaði og bara tæpum tveimur mánuðum eftir fráfall afa síns, pabba dætra minna.“
Yndislegt að tengjast ömmubarninu
Þorbjörg játar að það sé svolítið sérstök tilfinning að sjá dóttur sína verða að móður, en tilfinningin sé góð. Spurð hvort hún upplifi mun á móður- og ömmuhlutverkinu hugsar hún sig um og segist svo vera jafnstolt af Sölku Liv og þakklát fyrir hana og hún sé þakklát og stolt af dætrum sínum. Það sé yndislegt að fá að tengjast ömmubarninu. „Ég elska að vera amma hennar Sölku. Það er svo gott að finna ilminn af henni og syngja fyrir hana, hugga hana þegar hún er óróleg, ná að laða fram bros og fylgjast með hvað henni fer mikið fram. Salka Liv er með svo ótrúlega sterkan og sérstakan persónuleika. Hún er ljósið og kærleikurinn og þegar hún er í fanginu á mér finnst mér allt ganga upp og tilgangurinn með lífinu vera skýr.“
Þakklát fyrir traustið
Þorbjorg segist líka vera þakklát foreldrunum fyrir traustið sem henni er sýnt. „Ég er þakklát fyrir að hafa fengið leyfi frá Ástu Leu til að vera amma og ég finn að mér er treyst fyrir barninu. Það er nefnilega ekki sjálfsagt og ég reyni að vanda mig eins og ég get,“ segir hún glaðlega og nefnir að hún og foreldrarnir ræði allt mögulegt sem viðkemur umönnun og uppeldi. „Við tölum um brjóstagjöf, ungbarnameltingu, mataræði móður, föðurhlutverkið, stökkin sem börn taka í þroska, svefn, rútínu, bólusetningar, nefndu það!“
„Það mega alveg koma fleiri“
Og hvernig gengur að sinna ömmuhlutverkinu? „Vel.“ Þorbjörg brosir. „Ég tala bara við Sölku Liv og syng fyrir hana á íslensku að beiðni móður hennar, því þótt hún búi í Danmörku þá er hún íslenskur ríkisborgari og á að kunna íslensku. Þannig að amman er búin að gera sér lítið fyrir og útvega íslenskar barnabækur og barnalagalista á íslensku á Spotify fyrir barnabarnið!“ Hún hlær. „Eins og ég segi þá nýt ég þess að vera nálægt Sölku minni, hún er lánsöm að vera fyrsta barnabarnið og fá alla okkar athygli og nánd. En það mega alveg koma fleiri. Hinar tvær mega alveg fara að drífa sig, þótt þetta sé auðvitað fullkomið eins og þetta er.“