Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir segir Bubba Morthens hafa ítrekað komið illa fram við hana á meðan þau sátu í dómarasætum þáttarins Ísland Got Talent árið 2014. Þórunn segir frá þessu í hlaðvarpsþættinum Eigin Konur.
„Þetta var rosalega áhugavert. Þetta byrjaði sem eitthvað svona komment og svo bara urðu það að fleiri kommentum. „Þið eruð allar eins þessar gellur sem ælið upp öllu sem þið borðið“, þetta er bara sagt fyrir framan alla í miðjum tökum. Ég veit ekki hversu mikill fjöldi af ungum konum í mínum bransa – við höfum örugglega allar þjáðst af sjálfshatri, útlitskomplexum,“
Þórunn segist sjálf hafa glímt við átröskun og að Bubbi hafi niðurlægt sig með þessari athugasemnd.
„Maður kemur úr því að þurfa að vinna sig upp úr þessum ótrúlega brengluðu hugmyndum um hvernig maður á að líta út og maður er kominn á þennan stað í lífinu, að vera ein af fjórum stærstu stjörnunum í risastórum sjónvarpsþætti og er allt í einu mætt af frægasta manni Íslands sem er daginn út og daginn inn að niðurlægja mann fyrir framan alla samstarfsfélaga okkar.“
Þetta er ekki eina dæmið sem Þórunn nefnir en til að mynda segir hún Bubba hafa sagt við sig: „Þórunn þú pissaðir út fyrir, ætlarðu ekki að þurrka þetta upp, þú pissar alltaf út fyrir,“ ásamt því að kasta í hana súkkulaðimolum þrátt fyrir að hún hafi beðið hann um að hætta.
Þórunn varð ófrísk af sínu fyrsta barni á þessum tíma, þá hafi starfsfólk þáttarins komið saman í mat og bárust barneignir á tal.
„Hann byrjar allt í einu bara eitthvað „Auddi, þú átt eftir að vera svo frábær pabbi, djöfull áttu eftir að vera geggjaður í þessu hlutverki“ og bla bla bla. Svo beinist athyglin að mér. „Þórunn þú átt eftir að verða alveg afleit mamma. Þú ert svo mikið fiðrildi, þú átt örugglega bara eftir að skilja barnið þitt eftir einhvers staðar“ og hélt áfram þangað til Þorgerður stoppaði hann.“
„Hvenær er þetta við hæfi? Að segja við konu á barneignaraldri? Bara aldrei, hvað vissi hann? Kannski var ég að reyna að eignast börn, kannski var ég að reyna að eignast börn, kannski var ég búin að missa fóstur, kannski var ég ólétt – sem ég var,“
„Ég var að berjast við tárin á meðan hann var að kalla mig slæma móður.“
Þórunn ákveður að tilkynna óléttu sína og segir hún Bubba hafa brugðist við með dónaskap.
„Það eru allir bara mjög hissa og svo bætir hann við: „Við verðum að reka hana. Það verður að láta fokking reka hana. Það er ekkert „sell“ í því að hafa konu með barn á brjósti í sjónvarpinu“. Þá segi ég á móti bara: „Er eitthvað sell í því að hafa heyrnarlausan rokkara í sjónvarpinu?“. Þorgerður skipar honum þá að setjast niður og hann fer heim stuttu eftir það. Þetta var ekki gott vinnuumhverfi eftir þetta.“