Öryrkjabandalag Íslands hefur sett í loftið nýja herferð þar sem þess er krafist að lífeyrir sé hækkaður. Leikarinn góðkunni, Þröstur Leó Gunnarsson er í aðalhlutverki herferðarinnar.
„Efni herferðarinnar sýnir á kíminn hátt hvernig verðbólgudraugurinn stelur úr matarkörfunni, af bensíndælunni og jafnvel mínútum úr ljósabekknum. Markmiðið er að draga fram á skemmtilegan hátt brýna nauðsyn þess að hækka lífeyri.“ Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÖBÍ.
Herferðin er unnin í samstarfi við BIEN og skartar Þresti Leó Gunnarssyni í aðalhlutverki, þar sem sýnt er frá baráttu hans við hinn illræmda verðbólgudraug. Ágúst Bent Sigbertsson leikstýrir myndböndunum.
Enn fremur segir í tilkynningunni: „Verðbólgan hefur nefnilega leikið landsmenn grátt síðustu misseri. Það er allt of dýrt að fara út í búð, fólk á rétt svo fyrir húsnæðiskostnaði og það er illa hægt að gera eitthvað skemmtilegt þegar það er búið að greiða fyrir nauðsynjar. Þótt núna sé loksins farið að rofa til, stýrivextir hafi verið lækkaðir örlítið, er verðbólgan enn mikil, verðlagið allt, allt, allt of hátt og vextir sömuleiðis. Lífeyrir hefur hækkað á síðustu þremur árum, sem er frábært. Verðlag hefur hins vegar hækkað meira – húsnæði um 42 prósent og matur og drykkur um nærri 30 prósent. Verðbólgudraugurinn hefur sem sagt stolið öllum hækkunum síðustu ára og mun meira en það.“
Í lokaorðum fréttatilkynningarinnar segir að kaupmáttur sé ekki til staðar.
„Hugmyndir um að hækka lífeyri einungis til að standa vörð um kaupmátt eru sérkennilegar í ljósi þess að þessi meinti kaupmáttur er einfaldlega ekki til staðar. Hver er raunverulegur kaupmáttur 300.000 króna þegar þú þarft að borga meira en þá upphæð fyrir nauðsynjar?
Hækkun lífeyris er lífsnauðsynleg.“
Hér má sjá eina af auglýsingum herferðarinnar: