Rithöfundurinn Gyrðir Elíasson var í gær tilnefndur sem einn af 8 bestu erlendu rithöfundunum á hinum virtu frönsku bókmenntaverðlaunum Prix Médicis. Tilnefninguna hlýtur hann fyrir bókina Sorgarmarsinn (eða Requiem á frönsku) og verður sigurvegarinn tilkynntur þann 7. nóvember næstkomandi.
Verðlaunin frönsku voru fyrst veitt árið 1958 og eru þau veitt rithöfundum sem „hafa ekki fengið nægilega verðskuldaða athygli“, eins og það er orðað í lýsingu. Andrés Skúlason, frændi Gyrðis, fagnar sínum manni vel og innilega þegar tilnefningin varð ljós.
„Mikið er ég stoltur af einum mínum besta frænda og vini Gyrði Elíassyni sem hefur helgað líf sitt ritlistinni. Gyrðir hefur ekki staðið á torgum og kallað eftir hrósi, hann hefur einfaldlega haldið sínu striki hugsandi og hlédrægur, hefur aldrei sóst eftir sviðsljósinu sem er þó alsiða að sumir rithöfundar hafa nærst á.
Ég man eins og í gær þegar við bjuggum á sínum tíma í sama húsi hann á efri hæðinni og ég á neðri þá var hann að taka sín fyrstu alvöru skref á ritvellinum og ég man hvað hann þá beið spenntur en þó yfirvegaður eftir ritdómi ljóðabókarinnar „Bak við maríuglerið“
Ferill Gyrðis er hreint ótrúlegur og nær samfelldur og afköstin gríðarlega mikil og það magnaða er að hann hefur alltaf náð að endurnýja sig skapa nýjar persónur og hugarheim með sínum einstaka stíl sem engin hefur náð að leika eftir.